Samræmd hráefnisinnkaup fyrir skólamötuneytin

Skóli og frístund

""

Verið er að þróa sameiginlegan gagnagrunn fyrir yfirmenn í skólamötuneytum borgarinnar til að halda utan um hráefniskaup, matseðla og verð. Með slíkum gagnagrunni verður hægt að samræma hráefniskaup í hverfum borgarinnar þannig að unnið verði úr sams konar hráefni í skólamötuneytunum á tilteknum dögum.

Þá verða matseðlar næringarútreiknaðir samkvæmt ráðleggingum embættis Landlæknis til að tryggja að öll börn í borginni fái sambærilega næringarríka máltíð í skólanum.

Skólamötuneytum verður skipt upp í sex hverfi og hráefniskaup þeirra samræmd. Þannig verða rammasamningsverð Reykjavíkurborgar aðgengileg við matseðlagerðina sem stuðlar að hagkvæmni í innkaupum. Það auðveldar jafnframt framleiðslu og innkaup hjá birgjum að matseðlar mötuneytanna verði gerðir fram í tímann þannig að betur megi meta þörf fyrir hráefni.

Allir yfirmenn mötuneyta munu geta nýtt þennan sameiginlega gagnagrunn sem mun innihalda uppskriftir og matseðla er uppfylla orku- og næringarþörf barna miðað við aldur. Sérhvert skólamötuneyti getur áfram matreitt að sínum hætti og haldið sínum sérkennum, en gagnagrunnurinn býður upp á aukna samvinnu matráða og fjölbreytni.  Uppskriftir og matseðlar verða þannig þróaðir í samstarfi matráða og lögð áhersla á að þær uppskriftir sem eru vinsælar meðal barna verði áfram í boði og aðlagaðar til að mæta réttri næringarþörf. Þannig má nýta betur þá reynslu sem er í skólamötuneytum borgarinnar.