Samkomulag um World Scout Moot

Stjórnsýsla Mannlíf

""

Reykjavíkurborg hefur gert samkomulag við Bandalag íslenskra skáta (BÍS) varðandi World Scout Moot sem haldið verður á Íslandi nú í sumar. Er það langstærsti viðburður sem íslenska skátahreyfingin hefur tekið að sér.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri World Scout Moot undirrituðu samkomulagið. Reykjavíkurborg mun styrkja mótið með endurgjaldslausum afnotum af húsnæði Íþrótta- og sýningarhallarinnar og vegna sundlauga og fleira samkvæmt nánara samkomulagi og kostnaðaráætlun á milli BÍS og íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar (ÍTR). ÍTR mun hafa umsjón með þeim hluta samningsins fyrir hönd borgarinnar.

Bandalag íslenskra skáta mun einnig fá afnot af skólahúsnæði í Reykjavík fyrir gistingu þátttakenda samkvæmt nánara samkomulagi við skóla- og frístundasvið.

Skátarnir munu leggja fram vinnu við samfélags- og umhverfisþjónustu á tímabilintu 25. – 29. júlí, allt að ígildi 2.000 vinnustunda.
Skátarnir munu beita sér fyrir því að kynna Reykjavíkurborg sem best í sambandi við mótið og er m.a. gert ráð fyrir sérstakri kynningu á borginni á erlendri grund vegna þátttöku annarra þjóða á mótinu.

Bandalag íslenskra skáta mun tryggja  að merki borgarinnar verði notað á viðeigandi hátt í tengslum við mótið.

Risamót á vegum heimssamtaka skáta

Þetta er í fimmtánda sinn sem World Scout Moot er haldið og eru íslenskir skátar gestgjafar að þessu sinni. Mótið er haldið á vegum heimssamtaka skáta, World Organization of the Scout Movement (WOSM) og er heimsmót eldri skáta. Þátttakendur er ungt fólk á aldrinum 18 – 25 ára auk sjálfboðaliða 26 ára og eldri. Um er að ræða eitt stærsta einstaka verkefni skátahreyfingarinnar í 100 ára sögu hennar á Íslandi. Jafnframt stefnir í stærsta heimsmót eldri skáta sem haldið hefur verið frá því að fyrsta mótið var haldið 1931. Mótið er að öllu jöfnu haldið á fjögurra ára fresti, á mismunandi stöðum í heiminum.

Yfir fimm þúsund skátar frá yfir 100 löndum sækja mótið hérlendis. Um 450 Ástralir, 360 Svisslendingar og 300 Brasilíumenn mæta til leiks, 85 frá Hong Kong og 15 frá Suður Afríku.  Lang stærsti hópurinn kemur frá Bretlandi eða um 650 manns. Um 100 íslenskir skátar taka þátt.

Reyna að gera upplifun gestanna ógleymanlega

Yfir 300 íslenskir skátar hafa sinnt undirbúningi og skipulagningu mótsins frá árinu 2013 og vinna að því að gera upplifun þátttakenda ógleymanlega.
Þema mótsins er Change - Inspired by Iceland og að sögn skátanna er hægt að nýta það á margvíslegan hátt en það passar vel við það markmið skátahreyfingarinnar að gera heiminn að betri stað.

Mótið stendur yfir í níu daga frá 25. júlí – 2. ágúst 2017, en um 650 manns koma erlendis frá til að aðstoða við framkvæmd þess. Mótið verður sett í Laugardalnum. Í framhaldinu dreifast þátttakendur á ellefu miðstöðvar víðsvegar um landið. Miðstöðvarnar eru í Reykjavík, Akureyri, Hafnarfirði, Þingvöllum, Skaftafelli, Heimalandi, Vestmannaeyjum, Selfossi, Akranesi, Hveragerði og í Hólaskjóli. Þar munu þátttakendur taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Þeir munu einnig leggja samfélaginu lið með 20.000 vinnustundum í sjálfboðavinnu fyrir nærsamfélög einstakra miðstöðva, slík verkefni eru t.d. göngustígagerð og hreinsun stranda svo fátt eitt sé nefnt.

Sameinast á Úlfljótsvatni

Síðari  hluta mótsins sameinast þátttakendur á Úlfljótsvatni, þar sem skátarnir hafa byggt upp starfsemi frá árinu 1941. Mikil uppbygging hefur verið á Úlfljótsvatni í tengslum við mótið en farið hefur verið í framkvæmdir fyrir um 50 millónir króna.  Á Úlfljótsvatni verður fjölbreytt dagskrá fyrir þátttakendur. Mótinu verður slitið á Úlfljótsvatni 2. ágúst. Margir þátttakendur ferðast um Ísland fyrir eða eftir mótið. Að meðaltali eru þátttakendur á landinu í um þrjár vikur. Áætlaðar gjaldeyristekjur af mótinu eru yfir tveir milljarðar króna  en af því eru yfir 500 milljónir í beinan kostnað vegna mótsins.