Sækja skal um leyfi til að halda hænur

Heilbrigðiseftirlit Umhverfi

""

Það má halda fjórar hænur í Reykjavík en engan hana. Hænsnahald er leyfisskylt og skal sækja um leyfi fyrir því hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vill koma á framfæri að hænsnahald í íbúabyggð í borginni er háð leyfi skv. samþykkt nr. 815/2014 um hænsnahald í Reykjavík, utan skipulagðra landbúnaðarsvæða.

Sækja skal um leyfi til Heilbrigðiseftirlitsins og skal samþykki eigenda aðliggjandi lóða fylgja umsókn. Ef um er að ræða fjöleignahús skal að auki liggja fyrir samþykki sameigenda samanber lög nr. 26/1994 um fjöleignahús. Sé umsækjandi leigjandi skal fylgja samþykki leigusala.

Hænsnakofi og tilheyrandi gerði skal að lágmarki vera þrjá metra innan lóðarmarka og þarf að uppfylla ákvæði gildandi byggingarreglugerðar.

Heimilt er að hafa að hámarki fjórar hænur en hanar eru ekki leyfðir.

Heilbrigðiseftirlitið hvetur fólk til að kynna sér vel efni samþykktarinnar á vef Reykjavíkurborgar áður en það tekur ákvörðun um hænsnahald.

Ef hænsnahald er þegar hafið án leyfis ber að snúa sér tafarlaust til Heilbrigðiseftirlitsins og sækja um leyfi.

Allar frekari upplýsingar má fá hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í síma 4 11 11 11, hjá Rósu Magnúsdóttur deildarstjóra Umhverfiseftirlits eða Hörpu Lindar Björnsdóttur heilbrigðisfulltrúa.

Samþykkt um hænsnahald