Róttæk, félagsleg og stórhuga húsnæðisáætlun kynnt

Atvinnumál Fjármál

""

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar var kynnt á fjölmiðlafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag sem róttæk, félagsleg og stórhuga. Þar kom fram að byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir eru komnar á framkvæmdastig í borginni og fjölgar hratt. Að auki liggja fyrir í staðfestu skipulagi byggingarsvæði fyrir aðrar 2.500 íbúðir og þá eru um 4.000 íbúðir í formlegu skipulagsferli. Auk þess eru svæði fyrir tæplega 10.000 íbúðir í þróun.

Átak í skipulagsmálum

Reykjavík hefur með átaki í skipulagi tryggt fjölbreytt byggingarsvæði fyrir allar gerðir íbúða með áherslu á litlar og meðalstórar íbúðir á grundvelli markmiða um húsnæði fyrir alla, félagslega blöndun og aðalskipulag Reykjavíkur.

Borgin leggur samanlagt fram 59 milljarða til fjárfestinga, húsnæðisstuðnings og sérstakra búsetuúrræða næstu fimm ár. Húsnæðisáætlun veitir kærkomna yfirsýn yfir framgang þessara mála.

Yfir 3.000 íbúðir byggðar án hagnaðarsjónarmiða

Megináhersla í húsnæðisáætlun borgarinnar er á samstarf við byggingafélög sem reisa íbúðir án hagnaðarsjónarmiða. Alls eru um 3.700 staðfest áform um íbúðir fyrir stúdenta, eldri borgara, fjölskyldur með lægri og millitekjur og búsetu.

Félagsleg blöndun tryggð í samningum við verktaka

Á öllum nýjum þróunarsvæðum hefur verið samið um að hlutfall leigu- og búseturéttaríbúða á hverju uppbyggingarsvæði verði 20-25%. Jafnframt hefur verið samið um að Félagsbústaðir hafi kauprétt að um 5% af öllum nýjum íbúðum. Hvoru tveggja til að tryggja félagslega blöndun um alla borg.

Uppbygging til að mæta brýnni þörf

Reykjavíkurborg hefur endurskoðað markmið aðalskipulags um að 700 íbúðir byggist á hverju ári.

Hið nýja markmið er að 1.250 íbúðir fari í smíði á hverju ári, næstu fimm ár, til að mæta árlegri uppbyggingarþörf, uppsafnaðri þörf vegna hægrar uppbyggingar eftir hrun og nýrri þörf vegna vaxtar ferðaþjónustu.

Visir.is var með útsendingu frá fundinum.

Kynning fyrir fjölmiðla á húsnæðisáætlun

Byggingarreitir 2015 - 2020

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar