Rjómi þess besta í leikskólastarfi

Skóli og frístund

""

Mikill áhugi er á Stóra leikskóladeginum sem haldinn verður í Ráðhúsi Reykjavíkur og í Tjarnarbíói föstudaginn 29. maí. 

Stóri leikskóladagurinn verður haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og í Tjarnarbíói föstudaginn 29. maí. Hann er stærsta fagstefna leikskólastarfsfólks á landinu, en þar munu hátt í 30 leikskólar kynna ýmis þróunarverkefni með sýningu í Tjarnarsal Ráðhússins og fagfólk miðla nýjungum í fræðunum með erindum og umræðum í Tjarnarbíói. Mikill áhugi er meðal leikskólastarfsfólks fyrir þessari fagstefnu en margir leikskólar nýta daginn til símenntunar.

Að þessu sinni er Akureyri gestur á Stóra leikskóladeginum og kynna tveir leikskólar að norðan starfsemi sína. Því má segja að rjóminn af því besta í leikskólafræðum verði til sýnis og umfjöllunar á þessari líflegu fagstefnu. 

Meðal þess sem fjallað verður um í erindum er hvernig tengja má nám í læsi við nám í náttúrufræði, gildi vísindaleikja í leikskólanum, leiklist í leikskólastarfi og samstarf leikskóla í anda Reggio Emilia. Þá verður fjallað um útinám ungra barna og læsisstefnu í leikskólum Akureyrar. Leikskólabörn munu koma fram og syngja og dansa fyrir gesti á sýningunni í Ráðhúsinu.

Þetta er í sjötta sinn sem Stóri leikskóladagurinn er haldinn og stendur dagskráin yfir frá kl. 8.30 - 16.30. Sýningin er öllum opin og eru foreldrar og allt áhugafólk um skólaþróun boðið velkomið.

Sjá dagskrá Stóra leikskóladagsins.