Reykvíkingar flokka plast í gríð og erg

Umhverfi

""
Búist við 60% aukningu á magni plasts til endurvinnslu á milli ára. Þetta þýðir að Reykvíkingar eru duglegir að flokka plast og skila því til endurvinnslu.
Skil á plasti til grenndarstöðva í Reykjavík hafa aukist um 21% á milli ára. Þetta bendir til þess að innleiðing grænu tunnunnar undir plast hafi almennt hvatt til flokkunar á plasti. Skilin eru umfram magnaukningu í blönduðum úrgangi sem er um 4% en rekja má þá aukningu til batnandi efnahagsástands.
 
Ef sama aukning í plastskilum helst út árið má búast við að um 60% aukning verði á magni plasts til endurvinnslu í Reykjavík á milli ára. Ef fram fer sem horfir er verður heildarmagn plasts sem safnast til endurvinnslu í Reykjavík í ár rúm 248 tonn en 2015 söfnuðust um 100 tonn.
 
„Þetta er frábær árangur og mjög ánægjulegt að sjá hvað Reykvíkingar eru duglegir að flokka,“ segir Eygerður Margrétardóttir deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg. „Mikill umhverfislegur ávinningur er af endurvinnslu plasts og mikilvægt að safna því og skila til endurvinnslu.“
 
Í þessum tölum eru einungis tekið mið af því sem safnast í grænu tunnurnar undir plast við heimili fólks og á grenndarstöðvar sem eru 57 í borginni. Ekki er tekið með það sem safnast hjá endurvinnslustöðvum Sorpu en þar er einnig um 20% magnaukning. Þá bjóða einkafyrirtæki einnig móttöku á plasti við heimili sem stendur Reykvíkingum til boða gegn gjaldi.
 

Panta tunnur fyrir endurvinnsluefni