Reykjavíkurborg vill gjaldtökuheimild á nagladekk í umferðarlög

Samgöngur

""

Tillaga umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur um fræðsluátak og gjaldtökuheimild vegna notkunar nagladekkja var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði í dag, 7. júní.  Sviðinu er jafnframt falið að koma tillögu að lagabreytingu á framfæri við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Alþingi.

Endurskoðun umferðarlaga hefur verið á dagskrá Alþingis í nokkur ár en ekki náð fram að ganga. Sveitarfélög hafa ekki heimild eins og stendur til að leggja gjald á notkun nagladekkja.

Reykjavíkurborg leggur því fram tillögu að nýju lagaákvæði í umferðarlögum um heimild til gjaldtöku vegna notkunar nagladekkja. Lagt er til að á eftir 60. gr. í VIII. kafla umferðalaga nr. 50/1987 (um ökutæki) bætist við ný grein er orðast svo:

„Sveitarstjórn er heimilt að ákveða gjald af notkun hjólbarða með nöglum á nánar tilteknum svæðum. Sveitarstjórn skal ákveða gjaldtöku að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið. Með gjaldtöku er átt við gjald sem eigandi eða ökumaður ökutækis skal greiða fyrir heimild til að aka á hjólbörðum með nöglum þann tíma sem notkun þeirra er leyfð.“

Svifryksmengun

Hlutfall bíla á nöglum hefur hækkað að undanförnu og er nauðsynlegt að bregðast við því með einhverjum hætti. Bíll á nagladekkjum slítur malbiki um það bil hundraðfalt hraðar en bíll á ónegldum dekkjum. Það er staðreynd þrátt fyrir jákvæða þróun á gerð naglanna. Áhrifaþættir á slit malbiks eru m.a. gerð nagla, fjöldi nagla í dekki, þyngd ökutækis, hraði og ökulag.

Enginn vafi er á að minni nagladekkjanotkun dregur úr sliti og er brýnt að stefna að því. Fleiri ókostir fylgja nagladekkjum. Uppspænt malbik er þáttur í svifryki sem eru smáar agnir sem svífa í andrúmsloftinu og valda óþægindum í lungum. Svifryksmengun er sú tegund mengunar, sem fer oftast yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík. Á árunum 2002-2010 fór svifryk yfir sólarhringsheilsuverndarmörk um 29 sinnum á ári.  Þeim skiptum hefur fækkað  niður í um 8-9 skipti á ári  frá árinu 2012. 

Tvær rannsóknir á samsetningu svifryks í Reykjavík hafa verið gerðar og sýndi sú fyrri, frá árinu 2003, að hlutfall malbiks í svifryki var rúmlega 55% en á þeim tíma voru yfir 60% bifreiða á nöglum. Árið  2012 var hlutfall malbiks í svifryki um 18% en þá voru um 35% bifreiða á nöglum. Frekari rannsókna er þörf en þessar niðurstöður benda til þess að samdráttur í nagladekkjanotkun geti tengst minnkun malbiks í svifryki.

Talningar sýna að bílum á nagladekkjum fjölgaði aftur í Reykjavík veturinn 2016/2017 og fór hlutfallið um tíma í 47% nagladekk á móti 53% á öðrum tegundum. Brýnt er að bregðast við þessu og er takmörkun á nöglum liður í því að sporna gegn svifryksmengun.

Hávaðamengun

Reykvíkingar vilja njóta góðrar hljóðvistar í borginni. Veruleg hávaðamengun er af bifreiðum á nagladekkjum. Ráðið er ekki alltaf að byggja hljóðmanir og hljóðvarnarveggi heldur er hægt að draga úr hljóðmengun með því að nota ekki nagladekk og takmarka notkun þeirra.

Kostir gjaldtöku

Með því að heimila gjaldtöku á notkun negldra hjólbarða í þéttbýli má gera ráð fyrir að notkun þeirra dragist töluvert saman. Ávinningurinn af slíkum samdrætti væri mikill. Hér á eftir fara nokkra góður ástæður fyrir því að aka ekki um göturnar á negldum dekkjum. 

  • Minna slit á malbiki á götum.
  • Minna svifryk.
  • Minni kostnaður við hreinsun gatna, niðurfalla og gangstétta.
  • Minni hávaði af umferð næst vegi.
  • Minni eyðsla eldsneytis.
  • Betra andrúmsloft sem leiðir af sér bætt heilsufar almennings.

Þessi sjónarmið koma þegar fram í 3. mgr. 17. gr. vegalaga á Íslandi sem er svohljóðandi: ,,Gjaldtaka skal byggja á sjónarmiðum um vernd umhverfis, umferðaröryggi og stýringu umferðar, svo sem til að jafna álagi á einstök vegamannvirki til að greiða fyrir umferð eða til að draga úr sliti vega.“
Tillaga Reykjavíkurborgar að lagaákvæðinu styðst meðal annars við greiðsluregluna, einnig nefnd mengunarbótareglan sem er ein af elstu meginreglum umhverfisréttarins. Ekki er um að ræða skatt heldur þjónustugjald, en slík gjöld eru tekin fyrir veitta opinbera þjónustu af ýmsu tagi. Sveitarfélögum verður í sjálfsvald sett að virkja það ákvæði.

Einnig má nefna að rannsóknir sýna að góð alhliða vetrardekk reynast betur í fleiri aðstæðum en nagladekk í borgum og að nagladekk skapi falskt öryggi hjá ökumönnum. Þá hefur dýpt mynsturs í hjólbörðum áhrif á hversu gott grip þeirra er og nú er krafist þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða.

Reynsla erlendis

Gjaldtaka af notkun nagladekkja hefur gefið góða raun í Noregi, þ.e. í Osló, Þrándheimi og Bergen. Hlutfall bifreiða á nagladekkjum drjúglega saman þar eftir gjaldtökuna, eða úr 50% í um 15%. Á sama tíma hefur svifryk minnkað í öllum þremur borgunum. Samdrátturinn er að miklu leyti rakinn til gjaldtökunnar.

Framkvæmd

Hvað framkvæmd snertir er lagt til að eigendur eða ökumenn ökutækja útbúnum negldum hjólbörðum kaupi leyfi og uppfylli þannig gjaldskylduna.  Fylgt verði fordæmi Norðmanna og boðið upp á þrenns konar leyfi, þ.e. dagsleyfi, mánaðarleyfi eða leyfi sem gildir fyrir tímabilið sem leyfilegt er að aka um á nagladekkjum (1. nóvember til 14. apríl). Verð leyfanna fari eftir þyngd ökutækis. Þá leggist tvöfalt gjald á ökutæki sem eru yfir 3.500 kg að þyngd. Sum ökutæki verði e.t.v. undanþegin gjaldtöku vegna þjónustuhlutverks þeirra. Leyfi skuli ávallt komið fyrir á sýnilegum stað sem sést vel í gegnum framrúðu ökutækis.
 

Tengill

Tökum naglana úr umferð

Fræðsluátak og gjaldtökuheimild vegna notkunar nagladekkja