Reykjavíkurborg og samtökin Social Progress Imperative í samstarf

Stjórnsýsla Velferð

""
Reykjavíkurborg og samtökin Social Progress Imperative skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu þess efnis að Reykjavík verði fyrsta borgin í Evrópu til að taka upp sérstaka samfélagsvísitölu sem mælir gæði samfélagsinnviða eða Social Progress Index. Endanlegt markmið með þessu er að tryggja lífskjör íbúanna.
Vísitalan er sveigjanlegt tæki sem notar fjölmarga  mælikvarða til að mæla félags- og umhverfislega þætti borga – t.a.m. húsnæði, heilbrigði, lífslíkur og menntun – og virkar sem mikilvæg viðbót við hefðbundna efnahagslega mælikvarða eins og atvinnustig og landsframleiðslu. Vísitalan hefur verið notuð til að mæla gæði samfélagsinnviða á landsvísu í 161 landi, í sveitarfélögum, borgum og landsvæðum víða um heim.Social Progress vísitalan hefur ekki áður verið gerð fyrir evrópska borg.
 
„Ísland er í fjórða sæti á heimsvísu í Social Progress vísitölunni en við hjá borginni viljum gjarnan vita hvar Reykjavík er í þessum samanburði. Hvar við stöndum vel að vígi og hvar við getum bætt okkur,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík. „Þessi viljayfirlýsing er fyrsta skrefið í þeim leiðangri þar sem tilgangurinn er að kortleggja hvernig við tryggjum þarfir íbúanna, hvernig við göngum úr skugga um að íbúar hafi jöfn tækifæri og hvernig við gætum velferðar þeirra sem hér búa. “
 
„Hefðbundnir efnahagslegir mælikvarðar eru nothæfir til að gefa vísbendingar um efnahagslega þróun,“ segir Michael Green, forstjóri samtakanna Social Progress Imperative. „En þessi nýju gögn sem við munum afla gefa okkur nákvæman og einstakan skilning á því hvernig Reykjavík sem samfélag mætir félagslegum þörfum og væntingum íbúanna.“
 
Í því skyni að búa til þessa nýju vísitölu fyrir Reykjavíkurborg munu samtökin kortleggja allar stofnanir samfélagsins á breiðum grunni auk þess sem skoðað verður hvað íbúunum finnst einkenna Reykjavík sem sveitarfélag og um gæði félagslegra innviða í borginni.
 

Samtökin Reykjavíkurborg og samtökin Social Progress Imperative eru ekki rekin í hagnaðarskyni (non-profit). Markmið þeirra er að búa til mælitæki sem geta hjálpað við að bæta gæði innviða samfélaga og þannig bæta lífskjör fólks um allan heim. Með því að búa til öflugan og heildrænan mælikvarða sem heldur utan um rannsóknir og þekkingarmiðlun á samfélagslegri þróun fá leiðtogar í viðskiptum og stjórnmálum nýtt tæki til að vinna að stefnumótun og áætlanagerð.