Reykjavíkurborg fékk styttu af dverg að gjöf

Stjórnsýsla

""

Í síðustu viku voru góðir gestir í heimsókn hjá Reykjavíkurborg frá borginni Wroclaw í Póllandi en hún er systraborg Reykjavíkur.

Borgarstjórinn í Wroclaw, Rafal Dutkiewics, kom þá í opinbera heimsókn ásamt fríðu föruneyti og fræddist um starfsemi Reykjavíkurborgar, m.a. um skipulagsmál og þróun og uppbyggingu í Reykjavík. Pólverjarnir fengu einnig kynningu á starfsemi Höfuðborgarstofu. Sendinefndin fór víða, heimsótti m.a. Hörpu og miðborgina.  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð sendinefndinni m.a. í skoðunarferð um Grandann en þar var Marshall húsið heimsótt og söfnin þar en síðan var haldið í innlit í súkkulaðiverksmiðju OmNom og Hvalasafnið.

Í tilefni af heimsókn Pólverjanna var haldin mótttaka í Tjarnarsal Ráðhússins fyrir Pólverja sem vinna hjá Reykjavíkurborg. Við það tækifæri færði borgarstjóri Wroclaw, Rafal Dutkiewicz, Reykjavíkurborg bronsstyttu af dvergi að gjöf. Borgin Wroclaw er þekkt fyrir dverga sína en þar eru yfir 350 slíkar styttur dreifðar víðs vegar um borgina og hafa talsvert aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Reykvísku styttunni verður að öllum líkindum komið fyrir á bakka Reykjavíkurtjarnar, í suðausturhorni hennar.

Borgirnar tvær, Reykjavík og Wroclaw, eiga í margvíslegu samstarfi í tengslum við DiverCity ráðstefnuna sem haldin var í þriðja sinn í október síðastliðnum.

Í sendinefnd Wroclaw voru eftirtaldir: Rafał Dutkiewicz, borgarstjóri og eiginkona hans Anna Dutkiewicz, Jacek Ossowski, formaður borgarráðs og eiginkona hans Grażyna Ossowska,  Ewa Gołąb-Nowakowska, skrifstofustjóri yfir alþjóðaskrifstofu Wroclaw, Maciej Klóska aðstoðarmaður borgarstjórans, Paweł Wojdylak, frá borgarfyrirtækinu Wrocławska Rewitalizacja og Agnieszka Głuszenkow-Kowalska, alþjóðafulltrúi.