Reykjavíkurborg afhendir UNICEF 229 þúsund lítra af hreinu vatni

Mannlíf

""

Þriggja vikna Heilsuleikum Reykjavíkurborgar lauk nýverið en á þriðja þúsund starfsmanna borgarinnar tók þátt. Þátttakendur gerðu samanlagt yfir hálfa milljón af heilsueflandi æfingum á meðan á leikunum stóð og söfnuðu í leiðinni vatni handa börnum í neyð.

Notast var við heilsueflingarsmáforritið Sidekick þar sem starfsmenn skráðu æfingar í hreyfingu, næringu og hugrækt og söfnuðu með því stigum sem gáfu ákveðinn lítrafjölda af vatnsgjöf. Þannig gátu þátttakendur látið gott af sér leiða um leið og þeir efldu eigin heilsu. Vatnssöfnunin fór fram í samvinnu við UNICEF og þegar Heilsuleikunum lauk höfðu starfsmenn borgarinnar safnað 229.115 lítrum af hreinu vatni, gengið vegalengd sem nemur vel á þriðju hringferð um hnöttinn og tekið stigann á við 100 ferðir upp á tind Everest fjalls.

Ragnhildur Ísaksdóttir, mannauðsstjóri Reykjavíkurborgar, afhenti Bergsteini Jónssyni, framkvæmdastjóra UNICEF, vatnsgjöfina fyrir hönd starfsmanna borgarinnar en vatnsgjöfin dugar til neyslu og hreinlætis fyrir 31 barn í heilt ár.

„Það er svo gleðilegt að geta bætt eigin heilsu og um leið útvegað börnum sem búa við bágbornar aðstæður heilnæmt drykkjarvatn. Gjöf eins og þessi getur bjargað mannslífum,“ sagði Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi er hann veitti gjöfinni viðtöku. „Við erum Sidekick og Reykjavíkurborg afskaplega þakklát fyrir þetta frábæra framtak.“

Gjöfin mun gera UNICEF kleift að útvega vatnshreinsitöflur sem sendar eru til barna í neyð. Aðgangur að drykkjarhæfu vatni og skortur á hreinlætisaðstöðu veldur því að þúsundir barna veikjast og deyja á degi hverjum en óhreint drykkjarvatn er mikill skaðvaldur fyrir börn. Niðurgangspestir eru ein algengasta dánarorsök barna yngri en fimm ára í heiminum en óhreint vatn veldur oftar en ekki slíkum pestum. Með því að tryggja börnum drykkjarhæft vatn er lagður grunnur að betra lífi fyrir þau og fjölskyldur þeirra.