Reykjavik.is kemur vel út í nytsemisúttekt

Velferð Umhverfi

""

Í október var gerð nytsemisúttekt á vef Reykjavíkurborgar www.reykjavik.is sem fyrirtækið Sjá ehf gerði.  Vefurinn kemur vel út í úttektinni í samanburði við aðra þjónustuvefi að mati Sjá sem sá um prófunina.

Nytsemisúttekt er gagnleg aðferð til að kanna hvernig bæta megi vef, bæði hvað varðar virkni og viðmót. Nytsemismatið skilar niðurstöðum um hvernig megi laga vefinn að þörfum og væntingum notenda þess ásamt mati notandans á kerfinu.

Nytsemisúttekt felur í sér að fengnir eru notendur af handahófi sem mæta til ráðgjafa og leysa tiltekin verkefni og er fylgst vandlega með hvernig notanda gengur að leysa það sem fyrir er lagt.

Prófaðir voru fjórir þátttakendur, tveir höfðu lokið háskólaprófi og tveir iðnmenntun og allir nota tölvu í vinnu og heimafyrir. Tölvunotkun þátttakenda var mismikil allt frá tveimur  og upp í sjö klukkustundir á dag og höfðu allir notað vef Reykjavíkurborgar áður.

Niðurstaðan var sú að vefurinn kom vel út í úttektinni.  Notendur voru almennt ánægðir með leiðakerfið á vefnum, leitarvélin reyndist vel og þeir töldu að upplýsingar á vefnum væru settar fram með skýrum hætti.

Athugasemdir sem fram komu í úttektinni voru m.a. varðandi fasteignagjöld og Rafræna Reykjavík.

Strax verður farið í að lagfæra það sem betur má fara og gera vef Reykjavíkurborgar enn betri. Vefur borgarinnar er mikið notaður og fylgst er vandlega með því hvernig notkun hans er háttað og hvernig notendum gengur að leysa sín erindi. Á næstu dögum verða birtar fréttir hér á innri vef þar sem fjallað verður um vefinn og notkun hans og ýmis áhugaverð tölfræði dregin fram.