Reykjavík tryggir hjá VÍS

Stjórnsýsla Fjármál

""

Reykjavíkurborg hefur gengið til samninga við VÍS í kjölfar útboðs á tryggingum borgarinnar.  Samningurinn er til fimm ára frá næstu áramótum og undir hann fellur margvísleg starfsemi borgarinnar, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS), Bílastæðasjóðs og Skíðasvæðanna.

Reykjavíkurborg kaupir fyrst og fremst skyldutryggingar fasteigna og ökutækja og voru þær boðnar út sl. sumar með EES útboði. Þrjú tryggingarfélög skiluðu inn tilboðum og ákvað Innkauparáð Reykjavíkurborgar að ganga til samninga við VÍS. Samningsupphæð er tæpar 198 milljónir króna á ári.

Hrólfur Jónsson stjórnandi skrifstofu eigna og atvinnuþróunar skrifaði undir samninginn fyrir hönd borgarinnar, Jón Viðar Mattíasson fyrir SHS, Kolbrún Jónatansdóttir fyrir Bílastæðasjóð og Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs fyrir VÍS.  Hjá Reykjavíkurborg er haldið utan um tryggingamál hjá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Berglind Söebech er verkefnisstjóri trygginga.