Regnbogi Hinsegin daga við Ráðhúsið

Mannlíf Mannréttindi

""

Hinsegin dagar í Reykjavík hófust í hádeginu í dag þegar stjórn Hinsegin daga og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, máluðu Regnboga við inngang Ráðhúss Reykjavíkur (Vonarstrætismegin). Gleðilega Hinsegin daga!

Gangstéttin við inngang Ráðhússins var máluð regnbogaröndum Hinsegin daga en hátíðin hófst með málningarvinnunni á hádegi og lífgar nú upp á umhverfið. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, málaði rendurnar ásamt stjórn Hinsegin daga undir dynjandi tónlist og var fjölmenni samankomið til að fylgjast með framkvæmdinni.

Regnbogamálun Hinsegin daga er orðinn fastur liður sem opnunaratriði hátíðarinnar. Áður hafa Skólavörðustígur og tröppur Menntaskólans í Reykjavík verið klædd regnboga í tilefni Hinsegin daga.

Hinsegin dagar eru nú haldnir í nítjánda sinn og hefur hátíðin vaxið og dafnað með hverju ári. Í ár standa Hinsegin dagar frá 8. til 13. ágúst og á dagskránni eru um 30 viðburðir af ýmsum toga, þar má nefna ljósmyndasýningu, tónleika, dansleiki, dragsýningu og fleira auk fjölbreyttra fræðsluviðburða.

Hinsegin dagar ná hápunkti sínum laugardaginn 12. ágúst með gleðigöngu og útihátíð. Að þessu sinni fer gleðigangan frá Hverfisgötu að Hljómskálagarðinum þar sem útihátíð ársins fer fram. Undanfarin ár hafa um 70.000-100.000 gestir tekið þátt í dagskrá Hinsegin daga í tengslum við gleðigönguna og búast skipuleggjendur við miklum mannfjölda í ár enda veðurspáin góð. Dagskrána má nálgast á heimasíðu www.hinsegindagar.is

Gleðilega hátíð