Rætt um Betri hverfi í þrívíddarumhverfi

Betri hverfi

""

Spennandi tilraun í íbúalýðræði verður framkvæmd á morgun laugardaginn 1. nóvember.  Þá geta Reykvíkingar og aðrir forvitnir heimsótt Lýðræðismiðstöðina í Laugardal og tekið þátt í netspjalli í þrívíddarumhverfi um hugmyndir að Betri hverfum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík opnar netspjallið kl. 15.

Íbúar ses, sem reka samráðsvefinn Betri Reykjavík í samstarfi við Reykjavíkurborg, hafa nú þróað nýtt viðmót sem býður upp á að gestir spjalli í sýndarheimum um verkefni og hugmyndir í hverfum borgarinnar.  Viðmótið verður prófað í fyrsta sinn opinberlega á morgun laugardag.

„Þetta er nánast eins og að taka þátt í tölvuleik. Fólk spjallar saman í þrívíddarumhverfi og ræðir um ný verkefni í hverfunum í rauntíma,“ segir Róbert Bjarnason hjá Íbúum ses.

Íbúar munu kynna þetta viðmót fyrir almenningi og fjölmiðlum í Lýðræðismiðstöðinni í Laugardal. Allir eru velkomnir að mæta þangað með tölvur sínar og geta tekið þátt í íbúalýðræði í Reykjavík með nýjum hætti.

Íbúar ses bjuggu til samráðsvefinn Skuggaborg fyrir borgarstjórnarkosningar 2010 en upp úr honum varð Betri Reykjavík til.

Hugmyndasöfnun stendur nú yfir fyrir Betri hverfi 2015 og er þetta í fjórða sinn sem Reykjavíkurborg leitar til borgarbúa og biður um góðar hugmyndir fyrir hverfin. Hugmyndavefurinn Betri hverfi 2015  er opinn til 7. nóvember en framkvæmd verða verkefni fyrir 300 milljónir á næsta ári að loknum kosningum um hugmyndir borgarbúa.

Á morgun munu gestir Lýðræðismiðstöðvarinnar spjalla saman í sýndarheimum þar sem hægt er að skoða nokkur framkvæmd verkefni síðustu ára og bæta við hugmyndum að nýjum.

Fundurinn verður haldinn í Lýðræðismiðstöð í Laugardal, Vegmúla 2. Allir velkomnir.

Dagskrá

15:00 - 15:10 Dagur B. Eggertson borgarstjóri og Halldór Auðar Svansson, formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs opna netfundinn og segja frá Betri hverfum.

15:10 - 15:15 Gunnar og Róbert frá Íbúum kynna virkni spjallsins

15:15 - 17:00 Netspjall í öllum hverfum, bæði frá Lýðræðismiðstöð og af netinu. Öllum frjálst að halda áfram eftir að formlegri dagskrá lýkur.

Dagskrá verður send út beint á YouTube og er aðgengileg á síðum netfundar.

Takið þátt á vefnum
 

Lýðræðismiðstöð í Laugardal
Vegmúli 2, Reykjavík