Plastið burt úr borginni

Umhverfi

""

Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru verður viðburður í tengslum við átakið Plastlaus september í Kringlunni nk. laugardag, þann 16. september.  Það er Landvernd, Reykjavíkurborg, Umhverfisstofnun og Plastlaus september sem standa að viðburðinum auk Kringlunnar.

Hægt verður að fræðast um plastlausar lausnir og þann mikla plastúrgang sem fellur til á hverjum degi. Gestir Kringlunnar geta lært að búa til margnota poka, fræðst um óhefðbundnar leiðir til að losa sig við sorp og kynnt sér strandhreinsun Íslands.  Þá verður líka hægt að fá margnota poka gefins.

Plastpokaleysi er möguleiki í Reykjavík með því að nota fjölnota poka í þeirra stað. Plast er ein helsta umhverfisvá nútímans og áríðandi að hver og einn leggi sitt af mörkum til að draga úr plastnotkun.

Margir velta því hins vegar fyrir sér hvað eigi að nota utan um úrgang sem til fellur á heimilinu eða í fyrirtækinu ef þeir hætta að kaupa einnota poka úr plasti við innkaup eða í rúllum. Íbúar í Reykjavík geta sett blandaðan úrgang lausan í gráu tunnuna og spartunnuna og því er hægt að stunda pokalausan lífsstíl ef vilji er til en þá þarf líka að hafa í huga að halda þarf tunnunni snyrtilegra og því þarf að þrífa hana oftar en ella.

Einnig nota margir poka sem hvort eð er falla til á heimilinu undir úrganginn, s.s. pokana undan brauðinu og kartöflunum.  Nú er líka hægt að fá poka úr niðurbrjótanlegu efni, s.s. maíspoka, sem hafa nokkra yfirburði í umhverfislegu tilliti samanborið við plastpoka. Plast sem berst út í umhverfið getur valdið usla í náttúrunni svo áratugum og öldum skiptir. Taka má fram að flokkun endurvinnanlegra efna dregur verulega úr þörfinni fyrir poka undir blandaðan úrgang því efnunum má skila í lausu í endurvinnsluílát.

Reykjavíkurborg er ekki ein um að vilja draga úr plasti heldur vinnur hið opinbera, almenningur og grasrótarsamtök um allan heim að því að draga úr plastnotkun.  Nú þykir það bæði „hipp og kúl“ að ganga um með fjölnota poka og töskur.  Leggjumst öll á eitt og drögum úr plastnotkun.

Lengi lifir plastið - auglýsing