PISA-niðurstöður henta ekki til að meta stöðu einstakra skóla

Skóli og frístund Stjórnsýsla

""

Meirihluti borgarstjórnar felldi í gær tillögu Sjálfstæðismanna um að niðurstöður PISA- könnunar frá 2015 yrðu sundurgreindar með árangri sérhvers skóla í borginni í einstökum greinum; þ.e. lesskilningi, náttúruvísindum og stærðfræði í því skyni að hvetja til upplýstrar umræðu um kennsluhætti og námsárangur.

Í bókun meirihluta  Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata sagði:

„Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins ber vott um sérkennilega ofurtrú á gildi PISA- niðurstaðna þó fyrir liggi mat Menntamálastofnunar á því að niðurstöður fyrir einstaka skóla í Reykjavík séu í senn ónákvæmar og ómarktækar og stofnunin muni því ekki gera þær niðurstöður opinberar. PISA- rannsóknin veitir upplýsingar um stöðu menntakerfa í heild sinni en hentar ekki sem mælikvarði á stöðu einstakra nemenda eða skóla. Það er á þeim forsendum sem hvorki er skynsamlegt né gagnlegt að byggja á þeim til að stuðla að upplýstri umræðu um skólamál í borginni.

Í bókun Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina sagði:
„Það lýsir skammsýni og metnaðarleysi hjá borgarfulltrúum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna að hafna því að Reykjavíkurborg óski eftir sundurgreindum upplýsingum um árangur hvers skóla í borginni í PISA-könnun 2015 í einstökum greinum og afhendi þær viðkomandi skólastjórnendum, vilji þeir nota þær í því skyni að bæta skólastarfið. Flest önnur sveitarfélög landsins munu fá slíkar niðurstöður og nýta þær vafalaust til umbóta í skólastarfi sínu. Mörg erlend skólakerfi nota niðurstöður PISA-prófa til að gefa grunnskólum endurgjöf á starf þeirra. Íslenska menntakerfið er í kjörstöðu að því leyti að hér þreyta allir 10. bekkingar PISA prófið og því ættu niðurstöður þess að nýtast betur en í öðrum OECD-ríkjum þar sem einungis er um úrtak að ræða. Árið 2012 tók Námsmatsstofnun (forveri Menntamálastofnunar) saman greinargóðar upplýsingar um frammistöðu hvers skóla. Margir skólastjórnendur fögnuðu því að fá slíka endurgjöf á starfsemi sína, nýttu niðurstöðurnar til umbóta í skólastarfi og efldu þannig hag nemenda sinna sem hlýtur að vera lokatakmarkið.“

Í umsögn Menntamálastofnunar frá 30. janúar 2017 vegna fyrirspurnar Sjálfstæðismanna sagði m.a.: „Stofnunin leggur áherslu á að PISA-rannsóknin er ekki einstaklings- eða skólapróf, heldur er henni ætlað að meta menntakerfi Íslands sem heild í samanburði við önnur lönd. Ennfremur að kanna stöðu ólíkra hópa innanlands í samanburði við önnur lönd sem og í samhengi við núverandi stöðu jafnt sem þróun fyrri ára. Uppbygging prófsins er með þeim hætti að hver nemandi svarar aðeins litlum hluta þeirra spurninga sem liggja að baki til dæmis heildarmati á læsi og lesskilningi og því er áætluð meðaltöl fámennra hópa, eins og stakra skóla, afar ónákvæmt og vart marktæk.“