Pétur Gunnarsson fjallar um Gröndal

Menning og listir

""

Miðvikudaginn 25. október mun Pétur Gunnarsson rithöfundur fjalla um Dægradvöl Benedikts Gröndal, ævisögur og ævisagnaskrif á Bókakaffi í Gerðubergi. Kaffikvöldið er hluti af dagskrá Lestrarhátíðar í Reykjavík sem er að þessu sinni helguð Benedikt Gröndal í tilefni af opnun Gröndalshúss nú nýverið.

Sjálfsævisaga Benedikts Gröndal, Dægradvöl, er ein rómaðasta og ástsælasta sjálfsævisaga íslenskrar bókmenntasögu og einstök heimild um Reykjavík undir aldamótin 1900. „Í bókinni kynnumst við einstökum sögumanni sem hlífir engum og síst sjálfum sér, hann birtir okkur horfna tíma í vægðarlausu ljósi og síðast en ekki síst er hann frábær rithöfundur, hann kemur á óvart á hverri síðu og það er sama hvar gripið er niður, alltaf er stíllinn ferskur, lifandi og óvæntur,“ segir Jón Yngvi Jóhannesson, bókmenntafræðingur, um Dægradvöl.

Pétur Gunnarsson er þaulkunnugur Gröndal og Dægradvöl hans. Pétur sendi sjálfur  frá sér bókina Skriftir á síðasta ári, þar sem hann er á persónulegri nótum en oft áður. Þar lýsir hann fyrstu skrefum sínum inn á ritvöllinn, segir frá andrúmsloftinu í stóra fjölskylduhúsinu og viðkvæmum mótunarárum þegar sjálfsvitundin tekur heljarstökk.

Bókakaffi í Gerðubergi er hluti kaffikvölda í Gerðubergi og haldið mánaðarlega yfir vetrarmánuðina. Það er haldið fjórða miðvikudagskvöld í mánuði og er vinsæll liður í viðburðadagskrá Borgarbókasafnsins, en í haust  verður ævisagan í brennidepli.