Öndvegisbúðir 6. bekkinga í Breiðholti

Skóli og frístund Mannlíf

""

Nemendur í 6. bekk í grunnskólnum fimm í Breiðholti vinna saman í öndvegisbúðum í öllum skólunum dagana 17. og 18. október. 

Öndvegisbúðir eru liður í að auka samstarf grunnskólanna í Breiðholti, þ.e. Breiðholtsskóla, Fellaskóla, Hólabrekkuskóla, Seljaskóla og Ölduselsskóla og fá nemendur til að vinna saman að fjölbreyttum, ögrandi og ólíkum viðfangsefnum. Mikill áhugi er meðal kennara og nemenda á þessum þessum verkefnum.

Viðfangsefni sem nemendur taka fyrir í öndvegisbúðunum eru Vísindi og sköpun í Breiðholtsskóla, Margmiðlun, forritun og sköpun í Hólabrekkuskóla, Dans og tónlist í Fellaskóla, Hreyfing og vellíðan í Breiðholti með margmiðlunarívafi í Seljaskóla og  Fuglar – myndlist – tónlist í Ölduselsskóla. Nemendur úr öllum skólum skiptast jafnt á alla skólana.

Í öndvegisbúðinni Hreyfing og vellíðan í Breiðholti með margmiðlunarívafi var farið með allan hópinn í Elliðaárdalinn, útivistarparadísina í nágrenninu. Auk hreyfingar og útivistar tók hópurinn myndir á snjallsíma af ákveðnum þemum í dalnum. Í Seljaskóla er síðan unnið úr ferðinni í svokölluðu KeyWe appi undir forystu Ólafs Stefánssonar, handboltahetju sem kenndi börnunum á hvernig nota má þetta forrit við nám.

Öndvegisbúðunum lýkur svo í Ölduselsskóla með diskóteki og pizzuveislu fyrir alla nemendur 6. bekkja Breiðholtsskólanna fimm.