Öldrunarsetur við Sléttuveg

Velferð

""

Nýtt öldrunarsetur rís við Sléttuveg þar sem verður kaffihús, félagsstarf og heilsuefling fyrir alla aldurshópa.

Kynningarfundur á vegum þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis ásamt Hrafnistu um nýtt öldrunarsetur á Sléttuvegi var haldinn 29. nóvember í félagsmiðstöðinni Hvassaleiti 56-58 til þess að kynna setrið fyrir íbúum í nágrenninu. Í hverfinu er fjölda íbúða fyrir aldraða, fatlað fólk og námsmenn.

Á fundinum var farið yfir hugmyndafræði, teikningar og framkvæmdaáætlun, en vonir standa til að hjúkrunarheimilið muni taka til starfa síðla árs 2019 og og setrið líka.

Sjómannadagsráð Hrafnistu í samvinnu við Reykjavíkurborg  byggir 99 rýma hjúkrunarheimili og þjónustumiðstöð fyrir fullorðna við Sléttuveg en fyrsta skóflustungan var tekin fyrr í mánuðinum.

Við öldrunarsetrið eða þjónustumiðstöðina mun verða innangengt í frá íbúðunum.

Hugmyndafræðin er sú að íbúar hverfisins og víðar um borgina geti komið og tekið þátt í félagsstarfi og heilsueflingu í setrinu og sömuleiðis muni íbúar hjúkrunarheimilisins áfram geta tekið virkan þátt í samfélaginu með aðstandendum og vinum sínum í setrinu. Gert er ráð fyrir að rekið verði kaffihús í setrinu ásamt ýmissi annarri þjónustu.

Almenn ánægja var meðal fundargesta með að bygging setursins væri hafin. Þeir lögðu áherslu á gott gönguaðgengi að setrinu og sérstaklega var bent á mikilvægi þess að gangstéttir og stígar innan hverfisins þyrftu að vera vel úr garði gerðir og helst upphitaðir.

Einnig töldu fundargestir mikilvægi bílastæða fyrir þá sem koma akandi að setrinu þar sem margir gestanna  séu með skerta hreyfigetu eða fatlað fólk.