Ofbeldisvarnarnefnd styrki forvarnastarf vegna kynbundins ofbeldis

Mannlíf Mannréttindi

""

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag að fela ofbeldisvarnarnefnd að vinna tillögur að aðgerðum borgarinnar til að styrkja forvarnarstarf vegna kynbundins ofbeldis og mæta þörfum þolenda. Enn fremur þarf að efla aðstoð og ráðgjöf fyrir gerendur, auk fræðslu um mörk og virðingu. Stofnun nefndarinnar var samþykkt á hátíðarfundi kvenna í borgarstjórn í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna þann 31. mars sl.  og er henni ætlað að takast á við ofbeldi í sinni víðustu mynd – öllu ofbeldi alls staðar.

Nú nýlega hefur svokölluð Beauty tips bylting sýnt að nauðsynlegt er að tryggja ráðgjöf og stuðning við hæfi og sporna gegn frekara ofbeldi á sama tíma. Það er samdóma álit allra flokka að ástandið í samfélaginu, sterk rödd hundruða ef ekki þúsunda kvenna á samfélagsmiðlum og ákall um ábyrgð hins opinbera krefjist viðbragða. 

Sóley Tómasdóttir flutti tillöguna og sagðist vera bæði glöð og stolt af því að tilheyra fjölskipuðu stjórnvaldi sem viðurkennir og tekst á við þá meinsemd sem kynbundið ofbeldi er. „ Ofbeldi er nefnilega ein stærsta ógnin við lýðræðið, við virka þátttöku kvenna, áhrif þeirra og völd. Ofbeldið sem konum er hótað ef þær eru ekki þægar á vettvangi stjórnmálanna, inni á heimilunum, á skemmtistöðum eða annars staðar í lífinu. Kynbundið ofbeldi er því miður hversdagslegur hluti af samfélaginu. Það er óþolandi og því verður að útrýma,“ sagði Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaborgarfulltrúi tók í sama streng og sagði Reykjavíkurborg eiga að hafa  heilbrigði borgarbúa að leiðarljósi. „Ofbeldi er einfaldlega samfélagsmein sem verður að uppræta og ofbeldisvarnarnefnd er ætlað að tryggja að baráttan gegn ofbeldi verði viðvarandi viðfangsefni stjórnmálamanna og stofnana borgarinnar. Það er ekkert náttúrulögmál að önnur hver kona verði fyrir kynferðisofbeldi á ævinni. Það er bara ekki í lagi að unga fólkið okkar alist upp í samfélagi sem byggir á gömlum hugmyndum feðraveldis og ofbeldissamskiptum. Við erum að bregðast næstu kynslóð ef við grípum ekki inn í og sem ábyrgt stjórnvald getum við ekki annað en skoðað vandlega til hvaða aðgerða við getum gripið.”

Nefndin verður skipuð sjö fulltrúum og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs þrjá fulltrúa og þrjá til vara, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara, Stígamót tilnefna einn fulltrúa og einn til vara, Samtök um kvennaathvarf tilnefna einn fulltrúa og einn til vara og Embætti landlæknis tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara. Ofbeldisvarnarnefnd er vistuð hjá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Mannréttindastjóri ber ábyrgð á framkvæmd ákvarðana nefndarinnar og rekstri og stjórnsýslu hennar.