Nýtt útibú Borgarbókasafns opnar í Spönginni

Skóli og frístund Mannlíf

""

Laugardaginn 6. desember kl. 14 mun borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, opna nýtt hverfissafn Grafarvogsbúa í Spönginni 41 við hátíðlega athöfn.

Útibú Borgarbókasafns í Grafarvogi var áður til húsa í kjallara Grafarvogskirkju, en flyst nú í glæsilegt húsnæði í Spönginni. Við flutninginn mun safnið stækka um 500 fermetra og verður boðið upp á góða aðstöðu fyrir börn og unglinga og nægt rými til að setjast niður  í ró og næði, glugga í bækur og tímarit eða læra. 

Á nýju ári verður boðið upp á fjölbreytta menningarstarfsemi fyrir alla aldurshópa og má þar nefna leshringi fyrir börn og fullorðna, prjónakaffi, fjölskyldustundir fyrir foreldra með lítil börn, föndursmiðjur, fræðsluerindi, stuttmyndadaga og ýmis konar listsýningar.

Við flutningana mun aðgengið að safninu lagast mikið, næg bílastæði eru við safnið, strætisvagnar 6, 18, 24 og 26 stoppa allir við Spöngina og er safnið auk þess  staðsett steinsnar frá verslunum, heilsugæslu, félagsmiðstöðinni Borgum og Borgarholtsskóla.

Á laugardaginn 6. desember verður bókasafnið opnað formlega við hátíðlega athöfn klukkan 14.00.

Dagskrá:

Pálína Magnúsdóttir, borgarbókarvörður, býður gesti velkomna
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, „opnar“ nýtt safn
Stúlknakór Reykjavíkur í Grafarvogskirkju syngur jólalög undir stjórn Margrétar Pálmadóttur
Einar Már Guðmundsson, skáld og Grafarvogsbúi flytur hugvekju

Kl.14.30
Sirkus Íslands leikur listir sínar

Við sama tækifæri opnar sýningin Frystikista í fjörunni með verkum eftir Gunnhildi Þórðardóttur. Á sýningunni eru nýleg verk unnin á þessu ári og á árinu 2013 en titill sýningarinnar vísar í samnefnt ljóð listamannsins og er gagnrýni á neyslusamfélagið.

Veitingar og allir velkomnir.