Nýtt Sjálfsbjargarhús og fjöldi nýrra íbúða í Hátúni

""

Sjálfsbjörg og Reykjavíkurborg undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að vinna sameiginlega að þróun og skipulagningu á lóð Sjálfsbjargar við Hátún 12. Gerð deiliskipulags á reit Sjálfsbjargar við Hátún 12 verður grundvöllur að framtíðaruppbyggingu samtakanna á lóðinni. Gert er ráð fyrir að Kanon arkitektar annist gerð deiliskipulagsins í samstarfi við Sjálfsbjörg og Reykjavíkurborg.

Sjálfsbjörg áformar byggingu nýs Sjálfsbjargarhúss á lóðinni, auk 40 nýrra íbúða í tengslum við þá starfsemi. Meginástæða þess er sú að núverandi húsnæði mætir ekki lengur þörfum Sjálfsbjargar og þeirrar þjónustu sem Sjálfsbjörg veitir hreyfihömluðum, hvort sem um er að ræða búsetu eða dagþjónustu. Auk byggingar yfir starfsemi Sjálfsbjargar má gera ráð fyrir að á lóðinni megi byggja fjölda lítilla íbúða sem  gert er ráð fyrir að verði leigðar eða seldar á almennum markaði.

„Ég fagna frumkvæði og framtíðarsýn Sjálfsbjargar. Það er sameiginlegt hagsmunamál borgarinnar og Sjálfsbjargar að fjölga vel staðsettum íbúðum fyrir fatlað fólk og fjölga almennum íbúðum einnig á þessum frábæra stað. Við fögnum líka hugmyndum um nýtt Sjálfsbjargarhús og öfluga endurhæfingu í hjarta borgarinnar,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Í húsnæði Sjálfsbjargar er margvísleg starfsemi og þjónusta sniðin að mismunandi þörfum hreyfihamlaðs fólks, sum rekin beint af Sjálfsbjargarheimilinu en önnur ekki. Má þar nefna búsetuúrræði til skemmri og lengri tíma með áherslu á langtímaendurhæfingu, þjónustu- og þekkingarmiðstöð, veitingaþjónustu, sjúkraþjálfun, endurhæfingarlaug, hjálpartækjamiðstöð, frumkvöðlasetur o.fl. Auk þess er NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) miðstöðina með aðstöðu í húsnæðinu.

Gert er ráð fyrir að Sjálfsbjargarheimilið muni í framtíðinni leggja enn frekari áherslu á endurhæfingu og fjölbreytt búsetu- og þjónustuúrræði auk þess að efla þjónustu við stóran hóp hreyfihamlaðra í landinu. „Með þessu samkomulagi eru Reykjavíkurborg og Sjálfsbjörg að hefja samstarf um skipulagsvinnu þar sem lóð Sjálfsbjargar verður nýtt mun betur til framtíðaruppbyggingar þjónustu við hreyfihamlað fólk í landinu“, segir Þorkell Sigurlaugsson, ráðgjafi Sjálfsbjargar og verkefnastjóri þessa verkefnis. Þá verða einnig byggðar íbúðir á svæðinu með fjölbreyttum búsetuúrræðum hvort sem er fyrir hreyfihamlaða eða aðra. Það er í samræmi við þá stefnu, bæði Sjálfsbjargar og Reykjavíkurborgar, að fatlað fólk eigi möguleika á að leigja eða kaupa sér húsnæði sem byggir á algildri hönnun og því standi til boða að búa í sjálfstæðri búsetu með viðeigandi þjónustu“.