Nýtt rammaskipulag fyrir Vogabyggð

Skipulagsmál

""

Umhverfis- og skipulagsráð hefur samþykkt nýtt rammaskipulag fyrir Vogabyggð.
 

Svæðið sem rammaskipulagið nær til afmarkast af Sæbraut, Kleppsmýrarvegi og Elliðaárósum og var áður í útjaðri byggðar, en er nú nærri þungamiðju búsetu í Reykjavík.  Á svæðinu hafa verið iðnaðarfyrirtæki, verkstæði og geymslur í gegnum tíðina og er slík starfsemi enn víða á svæðinu. Undanfarin ár hefur hins vegar verið meiri ásókn í búsetu á svæðinu og hefur svæðið þjónað hlutverki sínu í núverandi mynd og er kominn tími á svæðið í endurnýjaðri mynd með blandaðri og vistvænni byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis í samræmi við markmið í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Rammaskipulagið byggir á vinningstillögum úr hugmyndasamkeppni um Vogabyggð sem haldin var síðastliðið haust og fór verðlaunaafhending fram 23. janúar 2014. Þar voru valdar tvær tillögur í fyrsta sæti. Taldi dómnefnd að saman gæfu þær svo áhugaverða framtíðarsýn fyrir svæðið að ákveðið var að velja báðar sem verðlaunatillögu. Höfundar beggja vinningstillagna hafa síðustu mánuði unnið saman að því rammaskipulagi sem nú liggur fyrir.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum 9. apríl sl. tillögu að rammaskipulagi fyrir Vogabyggð og fól embætti skipulagsfulltrúa að hefja undirbúning að gerð deiliskipulags fyrir svæðið í samvinnu við hagsmunaðila.

Rammaskipulag Vogabyggðar.