Nýtt námsmat í grunnskólum

Skóli og frístund

""
Í vor verður í fyrsta sinn gefin einkunn í bókstöfum við lok grunnskólans. 
Í aðalnámskrá grunnskóla með greinasviðum sem kom út 2013 voru sett fram ný matsviðmið fyrir 10. bekk og skólum gert að gefa einkunn í bókstöfum. Í upphafi stóð til að hefja mat í grunnskólum eftir þessum viðmiðum vorið 2015 en því var frestað til vorsins 2016 vegna óska frá sveitarfélögum og samtökum kennara.  Í vor verður því í fyrsta sinn gefin einkunn í bókstöfum í 10. bekk í öllum skólum landsins. 
 
Í janúar 2016 skoruðu Samfok, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, á borgaryfirvöld að óska eftir því við ráðuneyti menntamála að það frestaði gildistöku nýs námsmats nú í vor. Skóla- og frístundasvið telur að í ljósi þess þróunarstarfs sem þegar hefur verið unnið í skólunum sé ekki rétt að setja þá vinnu í uppnám. 
 
Skólastjórnendur og kennarar hafa unnið að innleiðingu hæfniviðmiða frá því að ný aðalnámskrá kom út 2011 og er innleiðing nýs námsmats framhald af þeirri vinnu.  Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur stutt við skólana með því að skipuleggja námskeið fyrir kennara og skólastjórnendur um innleiðingu á nýju námsmati og verið ráðgefandi eftir þörfum. Þá hefur sviðið sótt um undanþágu frá því að gefa nemendum sem nú eru í 9. og 10. bekk einkunnir í bókstöfum í þeim greinum sem þau hafa þegar lokið í 8. eða 9. bekk og hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið fallist á þá beiðni og kynnt hana á landsvísu.
 
Upplýsingar um framkvæmd námsmats í 10. bekk er að finna á vefsíðum skóla með unglingadeildir, en margir þeirra hafa unnið mikilvægt þróunarstarf. Meðal þeirra er Klébergsskóli sem í dag fékk hvatningarverðlaun skóla- og frístundasviðs fyrir útfærslu á nýju námsmati.