Nýr Pétangue völlur í Grafarvogi

Betri hverfi Framkvæmdir

""

Í framhaldi af hugmyndasöfnun meðal íbúa var í sumar settur upp Pétanque völlur við Gufunesbæ í Grafarvogi og er hann opinn öllum borgarbúum til æfinga. Völlurinn er sá fyrsti á Íslandi  sem er sérstaklega gerður fyrir pétanque og uppfyllir hann staðla sem keppnisvöllur 4x15 metrar hver braut.

„Systir mín og mágur kynntust íþróttinni í Danmörku og töluðu mikið um leikinn,” segir Sigurlaug Sigurðardóttir sem setti hugmyndina að þeirra áeggjan í hugmyndasöfnina Hverfið mitt í fyrra. Verkefnið hlaut kosningu og var hrundið í framkvæmd í sumar. Sigurlaug er að vonum ánægð með að hugmyndin hafi verið kosin og hún er nú í 16 manna hópi sem mætir reglulega á æfingar.

Pétanque er upprunalega franskur leikur en er í dag spilaður víða um heim. Sigurlaug rifjar upp að í sumar hafi þau spilað við finnska Pétanque spilara þegar þau voru á ferð um Helsinki.  Hún segir að flestir geti tekið þátt í leiknum og haft gaman af því leikreglur séu auðlærðar.

Á vellinum í Gufunesi eru 6 brautir. Tveir einstaklingar eða tvö lið etja kappi og geta verið þrír í liði.  Í einmenningi og tvímenningi hefur hver keppandi þrjár kúlur, en þegar þrír eru í liði hefur hver þáttakandi tvær kúlur. Leikurinn hefst með því að lítilli kúlu, sem kallast grís, er kastað út á brautina.  Keppendur kasta síðan kúlum til skiptis að grísnum og fær það lið stig sem nær sínum kúlum næst grísnum.  Það lið sem fyrr fær 13 stig vinnur leikinn.  Kúlurnar sem spilað er með eru ca 700 gr. og 71-76 mm í þvermál.