Nýr íbúðakjarni í Þorláksgeisla

Velferð

""

Nýr íbúðakjarni fyrir fimm einhverfa einstaklinga sem þurfa mikla þjónustu var formlega afhentur velferðarsviði í dag.

Í kjarnanum verður fimm einstaklingum gert kleift að halda sitt eigið heimili með aðstoð starfsmanna í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um þjónustu við fatlað fólk. Þjónustan er einstaklingsmiðuð og sveigjanleg og löguð að hverjum og einum til að styðja fólk til þess að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf á sínum eigin forsendum.  Íbúðirnar eru rúmgóðar, með sérverönd en einnig verður sameiginlegt garðrými.

Það voru Félagsbústaðir sem sáu um byggingu kjarnans en verkfræðingar, arkitektar og sérfræðingar frá velferðasviði í málefnum einhverfa  unnu saman að hönnuninni með þarfir íbúanna í huga.

Þorláksgeisli er einn af fjórum íbúðarkjörnum sem borgarráð hefur samþykkt að reisa á næstunni, en hinir verða við Austurbrún, á Kambavaði og í Einholti.  Við byggingu þeirra verður strax á hönnunarstigi horft til íbúanna  og komið þannig til móts við þarfir þeirra og færni áður en bygging hefst.
Reykjavíkurborg hefur einsett sér að fjölga sértækum húsnæðisúrræðum eins og þessum um 34 rými fyrir árslok 2017, og stefnir að því að byggja að minnsta kosti 100 íbúðir sérstaklega fyrir fatlað fólk fyrir árið 2020.

Búið er að ráða tvo starfsmenn, Kjartan Ólafsson, forstöðumann og Lindu Dögg Hólm teymisstjóra, í nýjan búsetukjarna við Þorláksgeisla en alls verða þar 24 stöðugildi. Stöðurnar eru auglýstar á vef borgarinnar.

Arne Friðrik Karlsson, leiðandi forstöðumaður hjá velferðarsviði segir frá störfunum sem nú eru laus til umsóknar á Þorláksgeisla.