Nýr hjólastígur meðfram Bústaðavegi

Umhverfi Skipulagsmál

""
Í gær var formlega tekinn í notkun nýr hjólastígur meðfram Bústaðavegi frá Háaleitisbraut að Stjörnugróf.  Hluti stígsins var tilbúinn fyrir ári, en nú er þessi rúmlega 1.800 metra leið samfelld og greið.
Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs opnaði stíginn formlega í tengslum við Samgönguviku sem nú stendur yfir en tilgangur hennar er að hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga.

Stígurinn bætir aðstöðu hjólreiðafólks til mikilla muna.  Hann er malbikaður með merktum hjólareinum, auk þess sem tekið er úr gangstéttarköntum á gatnamótum.  Á hluta stígsins þar sem hann liggur bak við jarðvegsmön verður sett upp aukin lýsing. Hliðra þurfti til götuvitum á gatnamótum, setja upp ný umferðarskilti og gera breytingar á gönguleiðum um miðeyjar.

Hönnun stígsins var hjá Hnit verkfræðistofu, VSÓ ráðgjöf sinnti eftirliti.  Verktaki við áfangann frá Háaleitisbraut að Hörgslandi var Gleipnir verktakar ehf, en fyrir áfangann frá Hörgslandi að Stjörnugróf var Urð og grjót ehf.  Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina er um 180 milljónir króna.

Stígagerðin er hluti af hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar.
 
Upplýsingasíður í Framkvæmdasjá: