Nýir standar fyrir útisýningar

Umhverfi Skipulagsmál

""

Hugmyndaleit vegna sýningarstanda utanhúss lauk nýlega. Hildur Steinþórsdóttir og Kristrún Thors eru höfundar vinningstillögunnar og verður lokaútfærsla sýningarstandanna í þeirra höndum.  Standarnir verða smíðaðir í sumar og fyrsta útisýningin opnuð í kjölfarið.

Vinningstillagan skírskotar til íslenskrar náttúru og fellur hönnunin vel að borgarlandi og borgarrýmum Reykjavíkur að sögn matsnefndar. Þá er talið tillögunni til framdráttar að standarnir sómi sér einir og sér á milli sýninga. Áferð stöpuls er að mati dómnefndar falleg og hann er léttur þrátt fyrir þungt efnisval. Sýningarstandurinn ræður við vindálag, hugað er að flutningi og samsetning er einföld. Í matinu er lögð áhersla á að léttleiki hönnunar haldi sér í lokaútfærslu.

Við mat á tillögum horfði dómnefnd til útlits standanna, hvernig þeir aðlöguðust borgarlandi, hve vel þeir hentuðu til sýninga, fyrirkomulagi og fjölbreytileika þeirra, auk kostnaðar við gerð þeirra.  Hönnuðir voru beðnir um að skoða staðsetningu standanna í borgarlandinu og veðurfarslegar aðstæður. Einnig var hugað að lýsingu sýningarflatarins og við lokaútfærslu vinningstillögu verða möguleikar á sólarsellum skoðaðir.

Í matsnefnd sátu Pálmi Freyr Randversson, formaður, Hildur Gunnlaugsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Hrólfur Jónsson og Guðný Gerður Gunnarsdóttir. Skrifstofa skipulags, byggingar og borgarhönnunar á umhverfis- og skipulagssviði, menningar- og ferðamálasvið og skrifstofa eigna og atvinnuþróunar stóðu sameiginlega að hugmyndasamkeppninni.

Nánari upplýsingar: