Nýir Reykvíkingar frá Sýrlandi

Mannréttindi Skóli og frístund

""

Reykjavíkurborg og Velferðarráðuneytið undirrituðu samning  26. janúar sem fjallar um móttöku, aðstoð og stuðning við fimm sýrlenskar fjölskyldur en hópurinn kemur til landsins á mánudaginn.

Reykjavíkurborg, Rauði krossinn á Íslandi og velferðarráðuneytið munu eiga samstarf um móttöku fólksins.  Tekið verður á móti 21 einstaklingi, þar af 10 börnum. Nú þegar er starfandi framkvæmdahópur sem í eiga sæti fulltrúar Rauða krossins og Reykjavíkurborgar sem vinna að daglegum verkefnum vegna móttöku hópsins.

Reykjavíkurborg mun tryggja fólkinu húsnæði, félagslega ráðgjöf, menntun og fræðslu, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við atvinnuleit og fjárhagsaðstoð til framfærslu. Fjölskyldurnar fá íbúðarhúsnæði , börnum verður tryggð skóla-, leikskólavist og frístund sem og aðstoð við leit að hentugu tómstundastarfi fyrir hvert og eitt þeirra.

Börnin eiga að njóta kennslu á eigin móðurmáli auk þess sem þau munu læra íslensku sem annað mál.

Hópurinn fær sérfræðiaðstoð félagsráðgjafa, lækna, geðlækna, sálfræðinga og stuðningsfulltrúa svo eitthvað sé nefnt en félagsráðgjafi leggur mat á þörf hvers og eins fyrir stuðningi.

Það er engin nýlunda hjá borginni að taka á móti flóttafólki en  Reykjavíkurborg hefur frá árinu 2005 tekið á móti um hundrað kvótaflóttamönnum frá ýmsum löndum.

Borgin býr yfir sérfræðiþekkingu í móttöku flóttafólks þar sem félagsráðgjafar í þjónustumiðstöðvum borgarinnar eru í lykilhlutverki í vinnu með flóttafólki  í samvinnu  við starfsfólk skóla- og frístundasviðs og Rauða kross Íslands.

Með núverandi samningi er gert ráð fyrir því að sett verði niður viðmið til framtíðar í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga með hvaða hætti eigi að reikna raunverulegan kostnað af móttöku flóttamanna ekki síst kostnaði sveitarfélaga vegna skólagöngu barna úr hópi flóttafólks.

Samningurinn gildir til tveggja ára.

Kostnaðaryfirlit