Nýbygging rís við Klettaskóla og endurbætur gerðar á eldra húsnæði

Velferð Umhverfi

""

Byggt verður við Klettaskóla og umfangsmiklar endurbætur verða gerðar á núverandi húsnæði. Jarðvegframkvæmdir hefjast í maí og byggingarframkvæmdir í haust. Gert er ráð fyrir að viðbygging verði tilbúin haustið 2018.

Um er að ræða meiriháttar breytingar á aðstöðu fyrir starfsemi skólans með áherslu á aðgengi og þjónustu við fatlaða nemendur hans. Áætlaður heildarkostnaður er 2,6 milljarðar króna og  hefur borgarráð heimilað að verkið verði boðið út. Búið er að kynna væntanlegar framkvæmdir fyrir hagsmunaaðilum, íbúum, foreldrum og kennurum á tveimur kynningarfundum.

Ný íþróttamannvirki og félagsaðstaða

Íþróttahús, tvær kennslusundlaugar og hátíðar- og matsalur koma norðvestan við gamla skólahúsið. Austan við það mun rísa félagsmiðstöð. Verulegar endurbætur verða gerðar á núverandi húsi og ofan á það verður bætt við hæð með aðstöðu fyrir starfsfólk. Verkgreinastofur flytjast í eina smiðju og frístundaaðstaða verður þar sem nú er íþrótta- og matsalur.  Endurbætur verða gerðar á upplýsingaveri (bókasafni), gangar breikkaðir, anddyri stækkað og aðgengismál verða lagfærð.

Í heildina verða ferlimál bætt og leiðir styttar og gerðar greiðar. Þannig verður öll kennsla á einni hæð og öll félagsaðstaða á neðri hæð hússins. Leiksvæði á lóð verður endurgert svo það henti betur fötluðum nemendum og jafnframt verður því aldursskipt með góðum tengingum á milli.

Hluti viðbyggingar felldur inn í landið

Nýjar byggingar verða að hluta til felldar inn í landið og þaktar með torfi. Þannig verður ásýnd þeirra gagnvart aðliggjandi byggð milduð. Viðbyggingin er höfð eins langt frá lóðarmörkum og mögulegt er og íþróttasalurinn niðurgrafinn til hálfs þannig að sá hluti hans sem stendur uppúr á norðurhorni lóðar samsvarar aðeins einni hæð. Félagsmiðstöðin austan við skólann verður einnig byggð inn í landið eins og segir í kynningu umhverfis- og skipulagssviðs.

Þjónar landinu öllu

Klettaskóli, sem áður var Öskjuhlíðarskóli og Safamýrarskóli, er sérskóli á grunnskólastigi og þjónar hann landinu öllu. Gamla skólahúsið var byggt í tveimur áföngum á árunum 1974 og 1985, en fyrirhugað var að byggja þriðja áfanga síðar og nú er loks komið að því. Starfshópur sem unnið hefur að undirbúningi mannvirkjagerðarinnar áætlar að í náinni framtíð verði nemendur 80 - 100 talsins.

Nánari upplýsingar