Nýbygging í Úlfarsárdal: Náttúra og byggð tengd á ljóðrænan hátt

Umhverfi Skóli og frístund

""

„Staðsetning bygginganna er góð með tilliti til stuttra vegalengda og eðlilegrar þéttingar byggðar“, segir meðal annars í niðurstöðum dómnefndar í hönnunarsamkeppni vegna Úlfarsárdals. Höfundar vinningstillögu er hópur frá VA arkitektum, Landmótun og Eflu verkfræðistofu. 

Úrslit í hönnunarsamkeppni um samþættan leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf, menningarmiðstöð og almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttahús í Úlfarsárdal auk íbúðabyggðar voru kynnt í Ráðhúsi Reykjavíkur síðdegis í dag. Ólöf Övarsdóttir formaður dómnefndar kynnti niðurstöðu hennar og opnaði sýningu sem verður í Ráðhúsinu til 3. desember.

Í umsögn dómnefndar segir um vinningstillöguna að styrkur hennar felist í frjórri útfærslu útivistarsvæða og innirýma og innbyrðis tengslum þeirra. Vel tekst að skapa einstakt mannvirki sem setur mikinn svip á borgarhlutann og gerir hann aðlaðandi og eftirsóknarverðan í borginni án þess að skyggja á útsýnið frá íbúðarhúsunum yfir dalinn.  

Álit dómnefndar er í heild neðst í þessari frétt.

Stoltir vinningshafar

Höfundar vinningstillögunnar er hópur frá VA arkitektum, Landmótun og Eflu verkfræðistofu. Frá VA arkitektum voru Heba Hertervig, Indro Indriði Candi, Magdalena Sigurðardóttir og Stefanía Sigfúsdóttir. Til aðstoðar var Ólafur Óskar Axelsson. Frá Landmótun voru Aðalheiður Kristjánsdóttir og Þórhildur Þórhallsdóttir. Frá verkfræðistofunni Eflu voru Brynjar Örn Árnason, Guðrún Jónsdóttir og Ríkharður Kristjánsson.

Aukin þjónusta í Úlfarsárdal og Grafarholti

Þjónustumannvirkin nýju munu nýtast íbúum í Úlfarsárdal, Reynisvatnsási og Grafarholti. Í undirbúningsferlinu öllu var lögð áhersla á að tryggja samráð við íbúa í öllum hverfunum, auk Knattspyrnufélagsins Fram.  Í samráðsferlinu var lögð mikil áhersla á að samnýta rými í byggingunum og voru þau sjónarmið lögð til grundvallar í hönnunarsamkeppninni.

Góð þátttaka í hönnunarsamkeppninni

Undirbúningshópur, sem borgarstjóri skipaði í ársbyrjun 2013 til að undirbúa hönnunarsamkeppni og tryggja samráð við hagsmunaaðila, lagði til í skýrslu sinni frá júní 2013 að farið yrði í opna tveggja þrepa samkeppni.  Á fyrra þrepi yrði lögð áhersla á staðsetningu og heildaryfirbragð, umferð, tengingar við nánasta umhverfi, dalinn og íbúðabyggð. Á seinna þrepi yrði lögð áhersla á nánari útfærslu á ofangreindum atriðum, starfseininganna sjálfra og innra skipulag þeirra.

Áætluð heildarstærð mannvirkjanna var um 15.500 fermetrar, sem skiptist þannig að aðkoma að mannvirkjunum átti að vera um um 400 fermetrar, samþættur leik- og grunnskóli með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf um 6.800 fermetrar, bókasafn og menningarmiðstöð um 1.300 fermetrar og sundlaug um 1.400 fermetrar. Íþróttahús Fram var áætlað um 5.600 fermetrar. 

Umfang verksins er eins og sjá má af þessum tölum mikið og var hönnunin opin á Evrópska efnahagssvæðinu. Alls voru 24 tillögur teknar til umfjöllunar hjá dómnefnd. Þar af voru 17 frá íslenskum stofum eða með þátttöku þeirra.

Umsögn dómnefndar um vinningstillögu

Hér á eftir er umsögn dómnefndar um vinningstillögu í heild eftir seinna þrep keppninnar:

„Staðsetning bygginganna er góð með tilliti til stuttra vegalengda og eðlilegrar þéttingar byggðar. Höfundum tekst að skapa lifandi og fjölbreytilega ásýnd mannvirkis með því að brjóta byggingarmagnið upp í staka byggingarhluta sem taka mið af stærð og hæð húsanna í nánasta umhverfi. Hver eining endurspeglar hlutverk sitt en saman móta einingarnar þá samstæðu heild sem óskað er eftir. Með því að raða einingunum eftir endilöngum hæðarkantinum á óhefðbundinn hátt skapast spennandi útisvæði í beinum tengslum við innrými byggingarinnar. Þannig virðist byggingin styttri og hver starfseining fær sín eigin sérkenni án þess að skerða gæði heildarinnar. Borgarhlutinn fær nýjan aðlaðandi jaðar sem ljær honum nýja ásjón frá dalnum og tengir saman náttúru og byggð á ljóðrænan hátt.

Hlaðið á milli menningarmiðstöðvarinnar og íþróttamannvirkisins er auðfinnanlegt og afar skemmtilega útfært. Þetta miðsvæði hefur allt til að bera til að verða eftirsóttur dvalarstaður fyrir alla borgarbúa. Við hlaðið er aðalinngangur allra stofnana og auðvelt að rata bæði utan- og innandyra enda er byggingin sérlega vel skipulögð. Í sameiginlegu aðkomurými er opið á milli hæða og allar starfseiningar því vel sýnilegar og auðfinnanlegar. Rýmið er bjart og gott útsýni er yfir dalinn. Menningarmiðstöðin, bókasafnið og miðsvæðið eru í beinum sjóntengslum við sundlaugina sem liggur vel varin vindum í krika byggingarinnar, en er þó nokkuð aðkreppt af gervigrasvelli. Á neðri hæð er matsalur í góðum tengslum við rými yngri barnanna og sundlaugarsvæðið. Mikill kostur er að innanhústengsl eru á milli skóla og íþróttasalar Fram, þó vegalengdin sé nokkuð löng. Skipulag sundlaugarsvæðisins er í meginatriðum vel leyst. Þó skal taka fram að bein tenging búningsklefa við innilaugina hefur truflandi áhrif á þá kennslu sem þar fer fram.

Skólabyggingin er í heild sinni vel skipulögð. Heimasvæði eldri nemenda er vel fyrir komið á efri hæð byggingarinnar. Nærliggjandi félagsaðstaða og rými tónlistarskólans stuðla að fjölbreytilegu félagslífi utan opnunartíma skólans. Til að forðast truflanir á kennslutíma hefur hver sjálfstæð starfseining eigið heimilisfang frá miðlægum gönguás sem tengir öll rými skólabyggingarinnar saman. Stærð og breidd gönguássins, ofanljós og sjóntengsl við neðri hæðina gera rýmið aðlaðandi og skemmtilegt. Skólinn uppfyllir allar kröfur sem nútíma kennsluaðferðir gera til rýmisgerðar skólabygginga. Stjórnunarrými skólans er auðfinnanlegt á efri hæð og þaðan er gott útsýni yfir dalinn og leiksvæði skólans. Þakgarðar af ýmsu tagi bjóða upp á aðstöðu fyrir útikennslu og margs konar aðra nýtingarmöguleika. Beint aðgengi eldri nemenda að eigin þakgarði og bein tengsl við útivistarsvæðið í suðri auka enn á gæði tillögunnar. Smiðjunni er valinn góður staður í vestasta hluta byggingarinnar og er í beinum tengslum við skjólgott útisvæði og tengist báðum hæðum skólans. Neðri hæðin er að sama skapi vel skipulögð og fjölbreytileg. Þar eru sjálfstæðar starfseiningar fyrir yngri börnin í beinum tengslum við aðliggjandi útisvæði. Leikskólinn teygir sig til suðurs og mótar skjólgott útivistarsvæði fyrir yngri börnin og er staðsetningin með tilliti til núverandi Dalskóla afar heppileg.

Þegar komið er inn í íþróttahúsið hafa gestir og gangandi góða yfirsýn yfir starfsemina. Félagsrými og skrifstofur félagsins þarfnast frekari útfærslu. Stjórnun, bikarasafn og félagsaðstaða umlykja íþróttasalinn og eru í beinum sjóntengslum við dalinn, íþróttasalinn og keppnisvöllinn. Á neðri hæð er að finna aðskilin búningsherbergi fyrir skólanema og félaga Fram í beinum tengslum við íþróttasalinn og útileikvanginn. Stúka er vel aðgengileg frá báðum hæðum en salurinn er ekki miðjusettur við keppnisvöll eins og óskað var eftir í forsögn. Fyrirkomulag einstakra starfseininga er þannig að auðvelt er að skipta mannvirkinu í þrjá eða jafnvel fjóra byggingaráfanga. Bílastæðum er vel fyrir komið og aðkomusvæði menningarmiðstöðvarinnar er eingöngu hugsað sem sleppisvæði fyrir foreldra. Bílastæðin austan og vestan allra bygginganna eru nauðsynleg og rýra ekki gæði almennra útivistarrýma fyrir framan byggingarnar. Tveggja hæða bygging býður upp á marga kosti. Með því að nýta hallann í landinu eru öll rými í raun á jarðhæð, hvort sem þau eru uppi eða niðri.

Hálfgegnsæir plastpanelar veikja gæði tillögunnar töluvert og þarfnast sú hugmynd endurhugsunar höfunda. Í heildina er tillagan vel útfærð og svarar vel forsendum forsagnar. Styrkur hennar felst í frjórri útfærslu útivistarsvæða og innirýma og innbyrðis tengslum þeirra. Vel tekst að skapa einstakt mannvirki sem setur mikinn svip á borgarhlutann og gerir hann aðlaðandi og eftirsóknarverðan í borginni án þess að skyggja á útsýnið frá íbúðarhúsunum yfir dalinn.“

 

Nánari upplýsingar:

Dómnefndarálit í Hönnunarsamkeppni um samþættan leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf, menningarmiðstöð og almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttahús í Úlfarsárdal auk íbúðabyggðar.