Ný útilaug við Sundhöllina opnuð

Íþróttir og útivist Skipulagsmál

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði í dag formlega nýja viðbyggingu og útilaug við Sundhöllina í Reykjavík.

Þetta var mikill hátíðisdagur fyrir íbúa Miðborgar og Hlíða því Sundhöllin er þeirra hverfislaug. Nýja útilaugin er frábær viðbót við Sundhöllina en jafnframt bætast við stór nuddpottur og vaðlaug ásamt köldum potti og eimbaði. Nýir útiklefar eru í nýbyggingunni.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að sannkölluð heilsulind hefði verið opnuð í Miðborginni sem íbúar þar ættu eftir að njóta.

Boðsgestir voru fjölmargir  en áttræðum Reykvíkingum var boðið að vera viðstaddir þar sem Sundhöllin varð 80 ára á þessu ári.

Meðal þeirra sem mættir voru var Benedikt Antonsson, fyrrverandi skrifstofustjóri, 95 ára að aldri, en hann var með þeim fyrstu sem stakk sér til sunds í Sundhöllinni þegar hún var opnuð 23. mars 1937 og hefur verið fastagestur í lauginni síðan. Benedikt var heiðraður sérstaklega og fékk innrammaða mynd af Sundhöllinni því til staðfestingar.

Fjölmargir fastagestir  Sundhallarinnar voru mættir. Þar var m.a. Jón Leifur Óskarsson sem fékk sér sundsprett í nýju útilauginni. Hann sagðist hafa komið fyrst í laugina fyrir 76 árum og æfði m.a. dýfingar í Sundhöllinni hjá Valdimar Örnólfssyni.

Íbúasamtök Miðborgarinnar afhentu Sundhöllinni listaverk að gjöf, forláta þvottapoka í yfirstærð eftir listakonuna Gerlu. Formaður íbúasamtaka Miðborgarinnar, Benóný Ægisson, sagði við það tækifæri að íbúar Miðborgarinnar fögnuðu útilauginni og væru nú loksins komnir úr „útlegð“ í Vesturbænum þar sem þeir hafa sótt mikið í hina frábæru útilaug þar.  Nýju útilauginni er einmitt ætlað að létta aðeins af álaginu á bæði Laugardalslaug og Vesturbæjarlaug en aðsókn í þær laugar hefur aukist gríðarlega á síðustu árum.

Sundhöllin var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni arkitekti sem þá starfaði sem Húsameistari Ríkisins. Hún þykir eitt af hans bestu verkum og því þurfti að vanda vel til verks. Arkitektarnir Ólafur Óskar Axelsson og Karl Magnús Karlsson hjá VA arkitektum sem hönnuðu viðbygginguna en þeir urðu einnig hlutskarpastir í arkitektasamkeppni sem Reykjavíkurborg  og Arkitektafélag Íslands stóðu fyrir 2013.  Skilyrðin í samkeppnislýsingu voru m.a. þau að viðbyggingin tæki mið af höfundarverki Guðjóns Samúelssonar og myndi ekki skyggja á aðalbygginguna.  Það þykir hafa tekist einstaklega vel og er léttleiki í fyrirrúmi í hönnun viðbyggingarinnar.

Framkvæmdir við jarðvinnu hófust í febrúar 2015 og var Ístak aðalverktaki. Verkefnisstjóri fyrir hönd Reykjavíkurborgar var Guðmundur Pálmi Kristinsson.

Byggingin er sú fyrsta á vegum Reykjavíkurborgar sem er BREEAM umhverfisvottuð en það þýðir að einungis eru notuð umhverfisvottuð byggingarefni og reynt að gæta þess að viðhaldsþörf verði í lágmarki. Lögð er áhersla á þætti sem gera allt umhverfið heilsusamlegra fyrir notendur.

Aðgengi fyrir fatlaða að lauginni og pottum er gott og þar eru sérstakir búningsklefar fyrir fatlað fólk.

Kostnaður við nýja útilaug og viðbyggingu er 1.610 milljónir króna.

Íþrótta og tómstundasvið Reykjavíkurborgar mun reka Sundhöllina.