Ný sýning á ljósmyndum eftir Maríu Kristínu Steinsson

Mannlíf Menning og listir

""

Sýning Maríu Kristínar Steinsson, Íbúð 5,  í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, samanstendur af 15 ljósmyndum sem eru hluti af samnefndu verkefni.  Myndirnar eru teknar á löngum lýsingartíma og fanga athöfn í heild sinni meðan hún á sér stað fyrir framan myndavélina.  Með síendurteknum hversdagslegum verkum inn á heimili sínu gerir ljósmyndarinn tilraun til að sýna hvernig ummerki tilveru okkar birtast meðan tíminn líður hjá.  Útkoman verður ljósmynd sem inniheldur tíma og hreyfingu sem þjappað hefur verið í kyrrmynd.

Meðan á myndatökunni stendur er ljósmyndin stöðugt að eyðast og endurnýjast.   Hvert augnablik líður hjá og eftir verður blær augnablika sem skarast og taka stöðugum breytingum; líkt og hið margbreytilega, skammvinna eðli tilvistar okkar. Myndirnar verða mjög persónulegar og nálgast jafnvel gægjur, þar sem áhorfandinn skyggnist inn á heimili ljósmyndarans og getur staldrað við hvert smáatriði í rýminu meðan líkami hans er að mestu eða öllu leyti gegnsær.

María K. Steinsson útskrifaðist með MA gráðu í myndlist  (ljósmyndun) frá Kingston University árið 2012 og BA gráðu í myndlist (málun) frá City & Guilds of London Art School árið 2008.  
www.mariaksteinsson.com

Frír aðgangur, allir velkomnir!

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Opið 13-17 um helgar,
12-19 mán.-fim. og 12-18 fös.