Ný Frú Ragnheiður tekin í notkun

Velferð Mannréttindi

""

Í dag tók Rauði krossinn í Reykjavík í notkun nýjan bíl til að sinna heilbrigðisaðstoð á götum höfuðborgarsvæðisins. Nýji bíllinn ber nafnið Frú Ragnheiður, rétt eins og forveri hans. Í bílnum sem ekur um götur borgarinnar sex sinnum í viku munu þrír sérhæfðir sjálfboðaliðar sinna nálaskipta- og hjúkrunarþjónustu.

Frá árinu 2009 hefur þjónustan verið veitt í gömlum sjúkrabíl, sem nú lýkur vegferð sinni. Í staðinn kemur nokkuð stærri bíll, sem auðveldar sjálfboðaliðum Rauða krossins og skjólstæðingum þeirra að athafna sig inni í bílnum. Hann hefur verið sérinnréttaður fyrir verkefnið af Óslandi ehf á Ólafsfirði.

Í Frú Ragnheiði er annars vegar starfrækt hjúkrunarmóttaka, þar sem einstaklingar geta komið og fengið heilbrigðisaðstoð eins og aðhlynningu sára, umbúðaskipti, blóðþrýstingsmælingu, saumatöku og almenna heilsufarsráðskoðun og heilsufarsráðgjöf.

Hins vegar er boðið upp á nálaskiptaþjónustu, þar sem einstaklingar sem sprauta vímuefnum í æð geta komið og sótt sér hreinar nálar, sprautur, nálabox og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti.

Heilbrigðisráðherra, Óttarr Proppé, fyrrum heilbrigðisráðherra og núverandi menntamálaráðherra Kristján Þór Júlíusson og borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson voru viðstaddir athöfnina í dag. 

Meira um frú Ragnheiði

Frú Ragnheiður á Facebook