Ný Borgarsýn komin út

Skipulagsmál Framkvæmdir

""

Sautjánda tölublaðið af tímaritinu Borgarsýn er komið út og er það þriðja tölublaðið sem kemur út á þessu ári. Borgarsýn kom fyrst út haustið 2011 en
það er umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar sem gefur blaðið út.

Tilgangurinn með útgáfu Borgarsýnar er fyrst og fremst að upplýsa borgarbúa um þau verkefni sem eru efst á baugi umhverfis - og skipulagsmála hverju sinni. Hægt er að nálgast rafræn eintök hér en hægt er að fá prentuð eintök í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni og í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Í leiðara blaðsins fjallar Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis og skipulagssviðs m.a. um opinn fund borgarinnar um loftslagsmál sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur nýlega. Á fundinum, sem var vel sóttur, nýtti Reykjavíkurborg tækifærið og sýndi hve fjölbreytt og yfirgripsmikið starf á sér stað hjá borginni á vettvangi umhverfismála. Mörg veggspjöld voru til sýnis á fundinum þar sem loftslagsverkefni Reykjavíkurborgar voru kynnt. 

Í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010 – 2030 er ítarleg áætlun um uppbyggingu hjólreiðaáætlunar og almenningssamgangna. Reykjavík hefur tekið höndum saman við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um þróun Borgarlínunnar, sem verður hágæðakerfi almenningssamgangna.

Borgarlínan er gríðarlega mikilvægt verkefni sem öll sveitarfélögin vinna nú að. Það að auka hlut almenningssamgangna ætti að skila mestum árangri í að draga úr losun í borginni auk þess að létta á umferðarþunganum á höfuðborgarsvæðinu.

Í blaðinu er því yfirgripsmikil umfjöllun um Borgarlínuna. Íbúaspá gerir ráð fyrir að til ársins 2040 fjölgi íbúum á höfuðborgarsvæðinu um ríflega 70 þúsund, sem jafngildir íbúafjölda Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs árið 2013.

Einnig er fjallað um framkvæmdir í miðborginni, m.a. við Austurhöfn. Skipulag fyrir Austurhöfn var samþykkt árið 2006 en nokkrar breytingar hafa verið gerðar á deiliskipulaginu til að bæta umhverfið á svæðinu enn meira.

Þá er fjallað um deiliskipulag Háskólagarða Háskólans í Reykjavík sem hyggst byggja stúdentagarða og íbúðir við Öskjuhlíð. Í þeirri skipulagsáætlun er lögð áhersla á aðlaðandi og vistlegt yfirbragð og gróðursæla ásýnd með vönduðu og samræmdu efnisvali.

Í blaðinu er einnig grein um 800 milljón króna viðhaldsáætlun Reykjavíkurborgar á fasteignum. Haldið verður áfram að endurnýja gervigrasvelli í borginni og er fjallað um það mikilvæga verkefni ásamt fleiru áhugaverðu.

Umhverfis – og skipulagssvið Reykjavíkurborgar vonast til þess að Borgarsýn upplýsi borgarbúa um áherslur varðandi þróun og ásýnd borgarinnar hverju sinni enda viðfangsefni sem koma öllum við. Ritstjórar Borgarsýnar eru Björn Ingi Edvardsson, Elínborg Ragnarsdóttir, Gunnar Hersveinn og Halldóra Hrólfsdóttir.
 

Borgarsýn 17. tölublað