Norræn verðlaunasamkeppni um sjálfstætt líf

Velferð

""

Taktu þátt í að aðstoða norrænar höfuðborgir að leysa alvöru áskorun. Íbúar Norðurlandanna eru að eldast og eftirspurn eftir lausnum fyrir aldraða og fatlað fólk er að aukast.

Reykjavík, Osló, Kaupmannahöfn, Helsinki og Stokkhólmur hafa tekið höndum saman um Norræna verðlaunasamkeppni um sjálfstætt líf. Föstudaginn 30. janúar klukkan 8.30 mun borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, hefja keppnina á Íslandi í Tjarnarsal Ráðhússins.

Keppninni er ætlað að auka lífsgæði fatlaðs fólks og aldraðra á sama tíma og umönnun ættingja og fagaðila verður einfaldari. Keppnin endurspeglar norræn gildi og saman vinna borgirnar að því að leita lausna sem auka jafnræði meðal íbúa.

Keppnin er liður í því að þróa norræna velferðarkerfið. Flestir vilja búa heima eins lengi og kostur er en keppninni er ætlað að gera öldruðu og fötluðu fólki það mögulegt með tæknilausnum handa þeim, ættingjum eða starfsmönnum velferðarþjónustunnar. 

Vegleg verðlaun

Aðalverðlaun eru ríflega 17 milljónir íslenskra króna eða ein milljón norskar krónur. Auk aðalverðlauna verða veitt sérstök verðlaun fyrir þverfaglega norræna samvinnu og námsmannaviðurkenning.

Allir með góða hugmynd geta tekið þátt. Vel er  haldið utan um keppendur á meðan á keppninni stendur og þeim  boðnar vinnusmiðjur, leiðsögn, þverfagleg samvinna og samstarf við norrænu höfuðborgirnar fimm. 

Að lokinni formlegri kynningu á verkefninu í öllum löndum verður opnað fyrir hugmyndir í sameiginlegri gátt á vefsíðu keppninnar  www.realchallenge.info eða 5. febrúar nk. Hægt er að senda inn hugmyndir að lausnum til 18. mars nk.

Vaxandi markhópur

Í dag eru aldraðir um fjórðungur íbúa Norðurlanda en þetta hlutfall mun hækka í 40% árið 2030 og í 45% árið 2050. Um 13-21% aldraðra stríða við einhverja fötlun eða skerta getu. Þetta kallar á nýjar lausnir og aukna þörf á því að auka lífsgæði þessa hóps.  Finna þarf lausnir sem gera fötluðu fólki og öldruðum kleift að lifa sjálfstæðu lífi.

Óhætt er að fullyrða að þessi þróun ýtir undir samvinnu Norðurlandanna í að leita lausna og efla velferðarkerfið og er þessi keppni liður í því. Með nýjum lausnum getum við lyft heilbrigðis- og velferðarþjónustu á hærra stig.

Nordic Innnovation er bakhjarl keppninnar og hefur það markmið að gera Norðurlönd leiðandi í lausnum á sviði heilbrigðis- og velferðarmála. Norræn verðlaunasamkeppni um sjálfstætt líf er eitt af fimm verkefnum Vitaverkefnisins (Lighthouse project), sem öllum er ætlað stuðla að þverfaglegri samvinnu milli Norðurlandanna.