Námsflokkarnir fagna 75 ára afmæli

Skóli og frístund

""

Um þessar mundir er haldið upp á 75 ára afmæli Námsflokka Reykjavíkur sem stofnaðir voru 1939. Markmið þeirra hefur frá upphafi verið að veita fullorðnu fólki tækifæri til að bæta menntun sína, sértæka og almenna. 

Námsflokkarnir hafa alla tíð verið frumkvöðlar á sviði fullorðinsfræðslu og lagað sig að breytingum á menntakerfinu og þörfum samfélagsins. Þannig fólst námsframboð fyrstu áratuganna einkum í frístundanámi, en 1970 var byrjað að bjóða upp á nám í fyrstu áföngum framhaldsskólans. 1990 var atvinnuleitendum boðið upp á viðbótarnám og íslenska fyrir útlendinga bættist við námsframboð NR á árinu 1994. Á árunum 1998–2005 voru þróuð ýmis námstilboð sem fólust í blöndu bóklegs og verklegs náms, sjálfsstyrkingu og starfsþjálfun. Hin síðari ár hefur starfsemin falist í menntunartilboðum til hópa fullorðinna og ungmenna, bóknámi og starfsnámi, allt frá einni önn til 18 mánaða.
Helstu samstarfsaðilar Námsflokkanna eru velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Fjölbrautaskólinn við Ármúla og mennta- og menningarmálaráðuneytið. 

Fyrsti forstöðumaður Námsflokkanna var Ágúst Sigurðsson sem sótti hugmyndir um fullorðinsfræðslu til Danmerkur og Svíþjóðar. Guðrún Halldórsdóttir var næsti forstöðumaður og starfaði fyrir Námsflokkana í þrjá áratugi, allt þar til Björg Árnadóttir tók við starfi hennar árið 2005. Iðunn Antonsdóttir hefur verið forstöðumaður Námsflokkanna frá árinu 2008.

Markmið NR eru að mæta af fagmennsku og virðingu fullorðnum einstaklingum sem vilja breyta lífi sínu með aukinni menntun, að varðveita sveigjanleika óformlegs náms í samspili við festu formlegs náms annarra menntastofnana og vinna samkvæmt félagslegri menntastefnu Reykjavíkurborgar að því að auka lífsgæði og samfélagsþátttöku fólks í gegnum menntun.