Mikill áhugi fyrir hraðri uppbyggingu í Úlfarsárdal

Umhverfi Skóli og frístund

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti á íbúafundi í gærkvöldi framkvæmdaáætlanir borgarinnar í Úlfarsárdal. Íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal voru spenntir að heyra um tímasetningar framkvæmda og var salur Ingunnarskóla þéttsetinn og stóðu margir meðfram veggjum.

Borgarstjóri kynnti byggingu á leik- og grunnskóla, bókasafni, menningarmiðstöð og íþróttaaðstöðu í Úlfarsárdal en hin nýja miðja mun þjóna íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal. Tíma- og kostnaðaráætlun verkefnisins var á dagskrá borgarráðs fyrr um daginn og upplýsti borgarstjóri fundargesti um að allir fulltrúar í borgarráði hafi samþykkt tvöföldum framlaga til byggingarinnar í fimm ára áætlun – úr fjórum milljörðum í átta.  Framkvæmdirnar í Úlfarsárdal eru því stærsta einstaka framkvæmd borgarinnar og mun framkvæmdakostnaður nema um 9,8 milljörðum króna en heildarbyggingamagn er um 15.500 fermetrar. 

:: Skoða kynningu borgarstjóra.

Skóflustunga á þessu ári

Áætlanir gera ráð fyrir að hönnun muni ljúka og framkvæmdir hefjist á þessu ári en á fundi borgarráðs í gær var heimilað að ganga frá samningum um fullnaðarhönnun byggða á verðlaunatillögu. Dagur sagði að skólahúsnæðið væri í forgangi og í samræmi við óskir íbúa. Byrjað verður á framtíðarhúsnæði leikskólans og verður það tilbúið til notkunar haustið 2016 en þá fyrst í stað notað fyrir grunnskólakennslu svo ekki þurfi að bæta við fleiri færanlegum kennslustofum við Dalskóla. Samhliða vinnu við 1. áfanga hefjast framkvæmdir við  2.  áfanga skólahúsnæðis og er gert ráð fyrir að honum verði lokið haustið 2018.  Í 3. áfanga, sem hægt er að vinna að samhliða 2. áfanga,  verður íþróttahúsnæðið byggt og taka tímaáætlanir þar mið af samningum við íþróttafélagið Fram en þær viðræður standa nú yfir. Dagur sagðist gjarnan vilja sjá samkomulag í höfn á næstu dögum. Áfangi 4 tekur svo til menningarhluta hússins, bókasafns og sameiginlegs rýmis, en í 5. og síðasta áfanga kemur sundlaugin og á verkinu í heild á að verða lokið árið 2022.

Heyra mátti á fundargestum að þeim fannst framkvæmdatíminn langur og hvöttu til að verkinu yrði flýtt sem frekast mætti vera. Í máli borgarstjóra kom fram að um tvöföldun á framkvæmdafé væri að ræða og því myndi byggingin rísa hraðar en áður stóð til. og Ámundi Brynjólfsson skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg sagði að framkvæmdatíminn skýrðist ennfremur af því að hér væri um sérhæft húsnæði að ræða með margvíslegum þörfum.  Áætlanir væru settar fram með það að markmiði að vera raunhæfar í tíma og að þær stæðust fjárhagslega.

Heildarkostnaður framkvæmdanna er um 9,8 milljarðar og þegar mest væri undir, yrði framkvæmt fyrir 2,4 milljarða á ári.

Fellsvegur bætir samgöngur innan hverfis

Í sumar hefjast framkvæmdir við Fellsveg með brú yfir Úlfarsá og sýndi Dagur myndir af brúnni. Með hinni nýju vegtengingu milli Grafarholts og Úlfarsárdals batna samgöngur innan hverfis og milli þeirra til muna.

Samgöngur út úr hverfinu verða einnig bættar, en á gatnamótum Reynisvatnsvegar, Víkurvegar og Vesturlandsvegar verður akreinum fjölgað og umferðarljósastýringu breytt.

Bæta þarf umgengni á byggingasvæðum

Borgarstjóri fór yfir framkvæmdaverkefni innan hverfanna og lagði mikla áherslu á að frágangur byggingarsvæða í Úlfarsárdal væri í lagi. Jafnframt hvatti hann íbúa til að láta vita af slæmri umgengni á byggingarlóðum en í kjölfar hrunsins hafi borgin gefið lóðarhöfum lengri tímafresti til að hefja byggingu á úthlutuðum lóðum.  Þeir frestir væru að öllum líkindum liðnir.

Þjónustukönnun verði notuð til að bæta þjónustu

Dagur fór yfir niðurstöður þjónustukönnunar Capacent sem gerð var meðal íbúa Reykjavíkur með samanburði milli hverfa. Þar kom fram að að almenn ánægja íbúa í Grafarholti og Úlfarsárdal með hverfið í heild væri um 79% sem þó er minni ánægja en í en í öðrum hverfum. Lagði borgarstjóri áherslu á að þjónustukönnunin yrði notuð sem vegvísir að því hvernig gera mætti betur í Úlfarsárdal, Grafarholti og öðrum hverfum borgarinnar.

Fundi var slitið um kl. 22.00 en fundarstjóri var Hermann Valsson formaður hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals.