Mikil jólastemning við Oslóartréð í dag

Umhverfi Menning og listir

""
Kveikt var á jólaljósum Oslóartrésins á Austurvelli í dag við hátíðlega athöfn í froststillu og heiðskíru veðri. Það var jólalegt um að litast í miðborginni því í Reykjavík er nú mesti snjór sem verið hefur í nóvember í áratugi.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík veitti grenitrénu viðtöku en hann felldi það sjálfur í borgarskógi Oslóar í byrjun mánaðarins. Viðstödd athöfnina í dag var Khamshajiny Gunaratnam, kölluð Kamzy en hún er varaborgarstjóri Oslóar.  Það var síðan sjö ára norsk-íslenskur drengur, Birkir Elías Stefánsson, sem kveikti ljósin á trénu.
 
Osló og Reykjavík munu halda áfram að kveikja jólaljósin á Oslóartrénu þótt framvegis muni það koma úr Heiðmörk, nánar tiltekið úr lundi sem Norðmenn búsettir á Íslandi ræktuðu upp í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Nóg er til af grenitrjám í Reykvísku skóglendi nú – sem var ekki þegar Oslóarbúar hófu að gefa Reykvíkingum tré úr þarlendum skógum.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og  Khamshajiny Gunaratnam varaborgarstjóri Oslóar fóru því saman í Heiðmörk í morgun til að kanna aðstæður í Norðmannalundi en þar eru há og falleg grenitré sem gætu prýtt Austurvöll í framtíðinni. Osló mun áfram senda fulltrúa sinn til hátíðahalda í upphafi aðventunnar eins og venja er og hafa fulltrúar borganna tveggja sammælst um að efla og raungera samstarf borganna á mörgum sviðum.

„Mér fannst fallegt og gaman að heimsækja skóginn í Heiðmörk og læra um sögu hans og sterk tengsl við Noreg,“ segir Kamzy. „Ræktunin hófst fyrir meira en 50 árum og hef séð með eigin augum að trén eru fullvaxta. Þetta er í fyrsta sinn sem ég heimsæki Ísland og það er sannur heiður fyrir mig sem fulltrúa Oslóarborgar að færa íbúum Reykjavíkur Oslóartréð. Ég hef heyrt að fyrir mörgum borgarbúum marki tendrun ljósa Oslóartrésins ákveðið upphaf jólahaldsins. Mikil vinabönd eru á milli borganna tveggja og við viljum styrkja þá vináttu með því að senda alltaf fulltrúa frá borgarstjórn Oslóar til Reykjavík. Framlag okkar í framtíðinni verður með einhvers konar menningarlegu ívafi, jafnvel barnamenningu – allt til þess að styrkja vinabönd Reykjavíkur og Oslóar,“ segir Kamzy.

 
„Það var frábært að geta sýnt fulltrúum Oslóar þessi fínu tré sem núna vaxa í Heiðmörk en framvegis mun Oslóartréð koma þaðan með sínar djúpu norsku rætur. Um leið ætlum við að nota tækifærið og styrkja tengsl borganna tveggja og efla hin menningarlegu tengsl sem munu svo leiða okkur á frekari brautir stórra og smárra verkefna þessara miklu vinaborga,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Skógræktarfélag Reykjavíkur mun aðstoða Reykjavíkurborg að velja trén í samstarfi við norska sendiráðið í Reykjavík. 

Tendrun ljósanna á Oslóartrénu á Austurvelli hefur um áratuga skeið markað upphaf jólahalds í Reykjavík. Fjölmenni var viðstatt þennan hátíðlega viðburð á Austurvelli í dag. Kynnir á hátíðinni var Gerður G. Bjarklind.

Jólastjörnurnar Stefán Hilmarsson og Ragnheiður Gröndal sungu jólalög ásamt einvala liði tónlistamanna.

Þá litu jólasveinarnir Skyrgámur, Kertasníkir og Bjúgnakrækir við en þeir stálust í bæinn til að ærslast svolítið.

Giljagaur er tíundi óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og rennur allur ágóði af sölu hans til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Steinunn Sigurðardóttir og Sigurður Pálsson leggja félaginu lið með túlkun sinni á Skyrgámi – Sigurður Pálsson hefur gert kvæði um Skyrgám og Steinunn Sigurðardóttir hannaði óróann. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið en óróar Styrktarfélagsins hafa prýtt Óslóartréð auk jólaljósanna.

 
Eimskip hefur frá upphafi flutt Oslóartréð til Reykjavíkur, borgarbúum að kostnaðarlausu.