Mikil hreyfing í ráðningum

Skóli og frístund

""

Vel miðar í ráðningum inn í leikskóla, grunnskóla og frístundastarf  þessar vikurnar. Enn á þó eftir að ráða í 119 stöðugildi í leikskólum, 58 stöðugildi  í grunnskólum og í um 135 stöðugildi á frístundaheimilum. 

Í 64 leikskólum Reykjavíkurborgar er óráðið í 14 stöðugildi deildarstjóra, tæplega 75 stöðugildi leikskólakennara og 19 stöðugildi stuðningsfulltrúa. Á skrifstofa skóla- og frístundasviðs er unnið náið með þeim stjórnendum leikskóla þar sem líkur eru á að einhverjar breytingar verði á þjónustu vegna manneklu.

Í 36 grunnskólum borgarinnar á enn eftir að ráða 18 grunnskólakennara, 17 stuðningsfulltrúa og 16 skólaliða. Einnig er óráðið í þrjú og hálft stöðugildi þroskaþjálfa og fjögur stöðugildi í mötuneytum.   

Staðan í ráðningarmálum hjá frístundaheimilunum er sambærileg og á sama tíma í fyrra. Í heildina vantar um 262 starfsmenn í 135,4 stöðugildi og er yfirleitt er um 50% störf að ræða. Betur gengur en á sama tíma og í fyrra að ráða í störf með fötluðum börnum og ungmennum, en enn vantar 64 starfsmenn. Yfirleitt kemur kippur í ráðningar þegar háskólanemar fá sínar stundarskrár en margir þeirra eru í hlutastörfum á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum.

Hreyfing hefur verið í ráðningum frá því í liðinni viku. Þá átti eftir að ráða 15 deildarstjóra og 86 leikskólakennara inn í leikskólana. Í grunnskólana vantaði þá 23 kennara, 34 stuðningsfulltrúa og 14 skólaliða.

Á sama tíma í fyrra átti eftir að ráða í tæp 102 stöðugildi í leikskólum borgarinnar, 43 stöðugildi í grunnskólum og 127 stöðugildi í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum.