Metþátttaka á stuttmyndahátíð grunnskólanema

Skóli og frístund

""

Stuttmyndahátíðin var haldin í 35. sinn í Bíó Paradís 28. maí og var þétt setinn bekkurinn. Aldrei áður hafa verið sendar jafn margar myndir inn í keppnina sem hóf göngu sína 1981.  

Alls bárust um 100 myndir í keppnina og er það metþátttaka. Myndirnar kepptu til sigurs í fjórum flokkum yngri og eldri nemenda; leiknum stuttmyndum, hreyfimyndum, heimildarmyndum og tónlistarmyndböndum. Óhætt er að segja að mikil gróska er í kvikmyndagerð í grunnskólum, félagsmiðstöðvum og frístundaheimilum borgarinnar. Mikil hugmyndaauðgi einkennir kvikmyndagerðina og tæknifærni en margmiðlunarver skóla- og frístundasviðs hefur yfirumsjón með tæknibúnaði og aðstoð við úrvinnslu mynda.    

Á kvikmyndahátíðinni voru sigurmyndirnar sýndar en þær voru; 

Hreyfimyndin Stökkið sem Tómas Nói Emilsson úr Hlíðaskóla gerði og sigraði í flokki yngri nemenda. Þrjár stúlkur, Helga, Rakel og Sigrún úr Sæmundarskóla fengu verðlaun fyrir bestu hreyfimynd í eldri flokki, myndina Nammi namm.

Heimildarmynd um skaðsemi reykinga sem nemendur í 7. bekk Kelduskóla gerðu fékk verðlaun sem besta heimildarmyndin í yngri flokki og þær Karen, Ísabella, Ninja og Hera úr Háteigsskóla gerðu bestu heimildarmyndina í eldri flokki um sjálfsímynd. 

Tónlistarmyndbandið Rapp sem Ólína Ákadóttir í Grandaskóla gerði vann til verðlauna svo og tónlistarmyndbandið Vicious and delicious sem eldri nemendur í Langholtsskóla gerðu. 

Besta stuttmyndin í yngri flokki heitir Garpur og varð gerð af nemendum í 7. bekk Hamraskóla en besta stuttmyndin í eldri flokki kom úr Vogaskóla og heitir Vitni. 

Kvikmyndagerð reynir á ólíka færni hjá hverjum og einum nemenda, s.s. leikhæfileika, myndauga, frásagnartækni, tækniúrvinnslu og samstarf. Óhætt er að segja að mikið hæfileikafólk á þessum sviðum var á kvikmyndahátíðinni í Bíó Paradís og er þeim óskað til hamingju með árangurinn.