Menningarnótt 2017 - Tónlistar- og menningarveisla

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Menningarnótt 2017 verður haldin í 22. skipti laugardaginn 19. ágúst. Í ár verður hátíðin ein allsherjar tónlistar- og menningarveisla en í miðborginni verður boðið uppá þrenna stórtónleika og yfir hundrað tónlistarviðburðir verða haldnir um alla borg. Frítt er inná öll söfn í miðborginni sem bjóða uppá afar fjölbreytta dagskrá.

Menningarnótt 2017 verður haldin í 22. skipti laugardaginn 19. ágúst.  Á blaðamannafundi um borð í ferjunni Akranes í dag kom fram að í ár verður hátíðin ein allsherjar tónlistar og menningarveisla en í miðborginni verður boðið uppá þrenna stórtónleika og yfir hundrað tónlistarviðburðir verða haldnir um alla borg. Frítt er inná öll söfn í miðborginni sem bjóða uppá afar fjölbreytta dagskrá. Leikarar, dansarar  og fjöllistafólk verða með uppákomur og íbúar bjóða víða uppá dagskrá í húsagörðum og sundum. Hlemmur er áherslusvæði Menningarnætur í ár en þar hefur verið mikil uppbygging síðustu misseri og boðið verður uppá fjölda áhugaverðra viðburða á svæðinu. Akranes er gestabær Reykjavíkur á Menningarnótt og ætlar af því tilefni bjóða uppá fjölbreytta dagskrá á veitingastaðnum Messanum við Sjóminjasafnið. Að venju er frítt í Strætó og Flugeldasýningin verður á sínum stað á Austurbakka kl. 23. Á Menningarnótt er sérstök áhersla lögð á að fjölskyldan njóti samveru, komi saman í bæinn og fari heim saman. Hægt er að nálgast alla viðburði á Menningarnótt á vefnum menningarnott.is.

SETNING OG VÍGSLA VIÐ VERÖLD-HÚS VIGDÍSAR
Setning Menningarnætur 2017 fer fram við Veröld – hús  Vigdísar kl. 12.30.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur hátíðina. Við það tilefni vígir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands torgið og frú Vigdís Finnbogadóttir gróðursetur tré. Samstarfssamningur milli Reykjavíkurborgar og Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar við Háskóla Íslands verður undirritaður. Hljómsveitin Skuggamyndir frá Býsans sér um að skemmta fólki fyrir setninguna og Múltíkúltíkórinn undir stjórn Margrétar Pálsdóttur flytur tónlist að henni lokinni. Gestum er boðið að skoða sýningu um Vigdísi Finnbogadóttur og fá leiðsögn um húsið. Þá verða uppákomur á og við torgið allan daginn.

TÓNAFLÓÐ RÁSAR 2 Á ARNAHÓLI
Tónaflóð Rásar 2 verður að venju með glæsilega dagskrá á Arnarhóli en yfirskrift tónleikanna er Eitthvað fyrir alla. Þau sem fram koma eru Reykjavíkurdætur, Friðrik Dór, Svala Björgvins og Síðan skein sól slær svo botninn í veisluna af sinni alkunnu snilld.  Tónleikarnir hefjast kl. 20 og standa til kl. 23 eða fram að flugeldasýningu Menningarnætur.

GARÐPARTÝ BYLGJUNNAR Í HLJÓMSKÁLAGARÐINUM
Bylgjan verður með viðstöðulausa tónlistarveislu í Hljómskálagarðinum frá kl. 18-22.45. Veislan hefst með grilli og síðan tekur tónlistin við. Þau sem koma m.a. fram eru Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar, Baggalútur, Dikta, Sycamore tree, Elísabet Ormslev, Birgir, Ása, RAVEN og Aron Hannes.

HIP HOP HÁTÍÐ MENNINGARNÆTUR Á INGÓLFSTORGI
Hip hop hátíð Menningarnætur eru einu tónleikarnir á Menningarnótt sem einblína einungis á þessa tegund tónlistar. Hátíðarhaldarar lofa afar góðri skemmtun þar sem úrval margra listamanna koma fram milli kl. 17-23. Dansskóli Brynju Pétur hefur skemmtunina með glæsilegu dansatriði.

TÓNLISTARVEISLA Í MIÐBORGINNI
Menningarnótt er ein allsherjar tónlistarveisla og verður yfir hundrað tónleikum slegið upp um miðborgina. Má þar nefna að Reykjavík Custom Bike Show verður haldið milli Tryggvagötu og Hafnarstrætis þar sem hægt verður að hlusta á rokk og ról, í Hörpu verður m.a. hægt að njóta Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Súkkulaðikökuóperu, Blúshátíðar í Reykjavík og Sönghópsins Spectrum. Í Hallgrímskirkju verður boðið upp á sálmafoss og í Iðnó ætla níu bílskúrshljómsveitir að troða upp, þar verður jafnframt slegið upp veglegri blúsveislu. Einu allsherjar Karnivali verður slegið upp á horni Klappastígs og Hverfisgötu þar sem hægt verður að skemmta sér við tónlist fjölmargra skemmtikrafta. Fjölmargir tónleikar verða haldnir í Petersen svítunni í Gamla bíói, Dillon, Mengi, Húrra, Hannesarholti og Kex Hosteli. Hitt húsið verður með veglega dagskrá þar sem tónlistarmenn og listamenn koma fram og stendur dagskráin frá 13.45-19. Fyrir þá sem vilja halda sína eigin tónleika verður svo hægt að syngja í útikarókí hjá tvíeykinu Hits&Tits við útitaflið við Bernhöftstorfu.

LEIKUR OG DANS
Hægt verður að stíga sporið, sjá leiklist og sviðslist víða um miðborgina. Á Hlemmi verður boðið uppá sýndarveruleika sem fjallar um að festast inní ósýnilegum kassa. Einn áhorfandi í einu fær að njóta upplifunarinnar. Í Tjarnarbíói verður Koddahjal þar sem gestum er boðið að koma sér vel fyrir í rúmum frá Rauða krossinum og hlusta á frásagnir af reynslu flóttafólks. Í Þjóðleikshúsinu verður fimm klukkutíma spunamaraþon frá hinum magnaða hópi, Improv Íslands. Hægt verður að læra salsa á Lækartorgi og Æskusirkusinn – Fjörleikhúsið verður á Klambratúni. Í Safnahúsinu verður leiklestur sem nefnist Spegill samfélagsins 1770 þar sem hægt verður að skyggnast inní líf landans fyrir tæpum tveimur öldum. Leikhópurinn Lotta treður upp í Hallargarðinum og í Þjóðminjasafninu verður hægt að sjá dansveislu frá Balkanskaganum.

SÖFN OG SÝNINGAR - FRÍTT INN
Frítt er inná öll söfn í miðborginni á Menningarnótt og verður opið frá morgni til  kvölds. Gjörningur Ragnars Kjartanssonar Kona í e-moll verður fluttur á sýningu hans í Hafnarhúsinu og farnar verða örleiðsagnir með jöfnu millibili um sýninguna, Íslensk erfðagreining býður uppá 100 ára afmælissýningu á verkum Kristjáns Davíðssonar þar sem hægt verður að sjá verk sem hafa aldrei verið sýnd áður á opinberum vettvangi. Ratleikur verður haldinn fyrir börn og fullorðna í Gallerý Fold og þar ætlar listakonurnar Katrín Matthíasdóttir, Þórunn Bára Björnsdóttir, Abba og Soffía Sæmundsdóttir að vinna að verkum sínum og spjalla við gesti. Listamaðurinn Snorri Ásmundsson opnar sýningu sína Mulieres Praestantes í Hannesarholti og Rússneska rétttrúnaðarkirkjan heldur íkonasýningu. Gallerý Port býður til myndlistarveislu þar sem haldin verður samsýning ungra og upprennandi íslenskra myndlistarmanna. Á Kjarvalsstöðum verður hægt að taka þátt í gerð langrar landslagsmyndar og skemmta sér í ratleik um útilistaverkin við húsið. Á Þjóðminjasafninu verður afar fjölbreytt dagskrá frá morgni til kvölds þar sem hægt verður að fræðast um sýningarnar á safninu og taka þátt í alls kyns viðburðum eins og að læra að gera Fuglafit, fara í teygjutvist, taka þátt fuglaratleik og finna út hversu þverþjóðlegur maður er. 

ALLS KONAR Á MENNINGARNÓTT
Fjölmargir aðrir viðburðir eru í boði á Menningarnótt og má þar nefna að JCI húsið í Hellusundi stendur fyrir flóamarkaði til þess að styðja við verkefnið The World Cleanup Day 2018. Í Múltí Kúltí á Barónstíg verður Róttæki sumarháskólinn með fyrirlestraröð þar sem fjallað er um málefni úr samtímanum sem brenna á fólki. Sendistofa Færeyja býður heim milli kl. 14-17 og ætlar borgarstjóri Þórshafnar, Annika Olsen að opna húsið. Marentza Poulsen reiðir fram færeyskt góðgæti og Stanley Samuelsen spilar skemmtilega tónlist. 

BORGARBÚAR BJÓÐA Í BÆINN
Sú skemmtilega hefð hefur skapast á Menningarnótt að nokkrir íbúar Þingholtanna bjóða gestum og gangandi á heimili sín eða garða í vöfflur og kaffi. Að sjálfsögðu verður haldið í þessa venju í ár. Heimilin sem bjóða til veislu í ár eru: Óðinsgata 8b, Þingholtsstræti 27,3h Ingólfsstræti 19, Hellusund 3, Grettisgata, 26 og Mímisgata 2.

FLUGELDASÝNINGIN
Flugeldasýning Menningarnætur í ár er í boði Reykjavíkurborgar og verður að venju glæsileg. Sýningin fer fram á Austurbakkanum við Hörpu kl. 23 en það er Hjálparsveit skáta í Reykjavík sem sér um skipulag og framkvæmd hennar ásamt Höfuðborgarstofu. Mælt er með því að áhorfendur staðsetji sig á Arnarhóli til að njóta sýningarinnar sem best.

GÖTULOKANIR
Á Menningarnótt er miðborgin ein allsherjar göngugata og verður því lokuð fyrir bílaumferð frá kl. 7 að morgni til 2 eftir miðnætti. Það er gert til þess að tryggja öryggi gangandi og akandi vegfaranda á þessum fjölsóttasta hátíðardegi ársins. Gestir Menningarnætur eru hvattir til að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til að komast á hátíðasvæðið. Þeir sem þurfa að koma á einkabíl er bent á að nota bílastæði við Borgartún þar sem ókeypis strætóskutlur aka fólki til og frá hátíðarsvæðinu frá kl. 7.30-1.00. Eins og lög gera ráð fyrir verður sektað fyrir ólöglegar bílastöður og þeir bílar sem hindra aðgengi lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs verða dregnir í burtu svo unnt sé að tryggja aðgengi þessara öryggisaðila ef óhapp ber að. Hægt er að nálgast kort yfir götulokanir á vefsíðu Menningarnætur eða í símaveri Reykjavíkurborgar frá kl. 8-23, s.411-1111.

FRÍTT Í STRÆTÓ Á MENNINGARNÓTT
Ókeypis verður í Strætó sem keyrir samkvæmt hefðbundinni leiðartöflu fram til kl. 22.30. Þá tekur við sérstök leiðartafla sem miðar að því að koma fólki hratt og örugglega heim úr miðborginni. Hægt er að finna nánari upplýsingar um leiðarkerfi þeirra vagna Strætó sem aka í miðborgina á  vef Strætó.  Á Menningarnótt er boðið uppá ókeypis strætóskutlur sem aka reglulega til og frá Borgartúni og að Hallgrímskirkju með viðkomu á Hlemmi. Þessi þjónusta hefur mælst vel fyrir síðustu ár en einkunnarorð hennar eru: Legðu fjær til að komast nær.

AÐGENGI OG ÞJÓNUSTA
Sérstök bílastæði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða eru á Skúlagötu, Túngötu og við Tækniskólann. Einnig verður hægt að taka leigubíl inn á Skólavörðuholt, Skúlagötu, Túngötu og BSÍ. Sérstök salerni fyrir fatlaða eru á nokkrum stöðum á hátíðarsvæðinu. 

MENNINGARNÆTURPOTTURINN
Landsbankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi. Árið 2008 hófu Landsbankinn og Höfuðborgarstofa samstarf um Menningarnæturpott Landsbankans en í hann er hægt að sækja um styrki til viðburðarhalds á Menningarnótt. Alls sóttu 70 um styrki í ár og 26 fengu úthlutað. Sérstök menningardagskrá verður einnig í útibúi bankans í Austurstræti 11 eins og fyrri ár.

FRAMKVÆMD OG SKIPULAG MENNINGARNÆTUR:
Höfuðborgarstofa heldur utan um undirbúning, skipulag og framkvæmd Menningarnætur í samstarfi við önnur svið borgarinnar, stofnanir, listamenn, félagasamtök og fjölda annarra. Bakhjarl Menningarnætur er Landsbankinn sem styrkir viðburði gegnum umsóknir í Menningarnæturpottinn. 

Stjórn Menningarnætur: Hrefna Haraldsdóttir formaður stjórnar, Áshildur Bragadóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu, Hildur Gunnlaugsdóttir skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna Reykjavíkur, Jakob Frímann frá Miðborginni okkar, Elínborg Kvaran markaðsstjóri Landsbankans og Markús Heimir Guðmundsson frá Hinu húsinu.

Verkefnastjórar Menningarnætur eru: Björg Jónsdóttir, Guðmundur Birgir Halldórsson og Aðalheiður Santos Sveinsdóttir.