Meiri endurvinnsluflokkun á heimilum

Umhverfi

""

Græn tunna undir plast er liður í því að bæta þjónustu við borgarbúa við flokkun til endurvinnslu á heimilum. Þjónusta með blandaðan úrgang skerðist ekki við þessa nýbreytni og verður jafngóð og áður hjá Sorphirðu Reykjavíkur. 

Verulega hefur dregið úr blönduðum úrgangi frá heimilum í Reykjavík á undanförnum árum eða úr 233 kg á íbúa árið 2006 í 149 kg á íbúa árið 2014 eða um 36% en Reykvíkingar hafa verið duglegir að flokka undanfarin ár, m.a. pappa og pappír til endurvinnslu. Búast má við að magn plasts sem skilað er til endurvinnslu margfaldist eftir að græna tunnan verður tekin undir plast 1. október næstkomandi og blandaður úrgangur minnki enn meira í kjölfarið.

Sorphirðan sækir nú blandaðan úrgang á tíu daga fresti en ofangreindar breytingar kalla á nýtt skipulag á tæmingu tunna. Ákveðið hefur verið að sækja blandaðan úrgang á 14 daga fresti og pappír á 28 daga fresti líkt og gert hjá nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur frá og með næstu áramótum.

Minni blandaður úrgangur, færri tæmingar

Flokkun á plasti frá blönduðum heimilisúrgangi minnkar úrgang í gráum tunnum, m.a. vegna þess að plast er um helmingi rúmmálsfrekara en blandaður úrgangur. Aukin flokkun og minna magn af blönduðum úrgangi gerir því borginni kleift að fækka tæmingum á gráu tunnunni án þess að skerða þjónustuna.

Íbúð sem hefur eina gráa tunnu fyrir blandaðan úrgang og aðra bláa fyrir pappírsefni getur losað 36 lítra á dag með núverandi hirðutíðni. Velji íbúar aftur á móti að hafa eina gráa, bláa og græna undir plast getur heimilið losað 34 lítra á dag með breyttri hirðutíðni. Þjónustan er því nánast sú sama  að þessu leyti en felst auk þess í meiri þjónustu við endurvinnsluflokkun við heimili. Leitast verður við að kostnaðurinn verði áfram sá sami fyrir og eftir breytingar.

Íbúar geta einnig valið að skila plastinu áfram í grenndar- eða endurvinnslustöðvar. 

Spurningum um fyrirhugaðar breytingar er fúslega svarað í síma 4 11 11 11 eða í gegnum netfangið sorphirda@reykjavik.is.

Tengill

Frétt: Græn tunna undir plast í Reykjavík.