Margt í boði fyrir fjölskylduna í vetrarfríi 19-23. október

Skóli og frístund

""

Frístundamiðstöðvar  og menningarstofnanir borgarinnar bjóða upp á fjölbreytta og ókeypis dagskrá fyrir alla fjölskylduna í vetrarfríi grunnskólanna dagana 19-23. október. 

Fjölskyldubingó í Árbænum, fjölskylduskemmtun á Kjarvalsstöðum, hrekkjavaka í Miðbergi í Breiðholti, útieldun og spilasmiðja í Gufunesbæ og skemmtun í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Þetta er meðal þess sem verður í boði frístundamiðstöðva borgarinnar í vetrarfríinu. Þá verður frítt í sundlaugar á völdum tímum. Jafnframt bjóða menningarstofnanir borgarinnar upp á skapandi smiðjur, leiki og getraunir fyrir alla fjölskylduna þar sem fullorðnir í fylgd barna fá ókeypis inn. 

Borgarbókasafnið er með dagskrá í öllum bókasöfnum sínum í vetrarfríi og Borgarsögusafn býður upp á ókeypis dagskrá fyrir börn og fjölskyldur þeirra á Árbæjarsafni, Sjóminjasafni, Landnámssýningu og Ljósmyndasafni. Meðal annars verður hægt að hlusta á Ævar vísindamann í Árbæjarsafni og fá fjölskylduleiðsögn um borð í varðskipinu Óðni við Sjóminjasafnið. Í Listasafni Reykjavíkur verður m.a. boðið upp á Erró-smiðju og örnámskeið fyrir börn í tengslum við þær sýningar sem nú standa yfir í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni. 

Kynntu þér dagskrána. 
 

Árbæjarsafn

Mánudaginn 23. október milli kl. 13-16 verður boðið upp á fjölskylduvæna dagskrá í Árbæjarsafni. Ævar vísindamaður les upp úr bók sinni Þitt eigið ævintýri í húsi sem nefnist LÆKJARGATA. Lesturinn hefst kl. 13:00 og eru allir velkomnir.

Í fræðsluhúsinu LÍKN er ljósmyndastúdíó á 1. hæð þar sem fólk getur klætt sig upp í búninga frá fyrri tíð og fengið starfsfólk til að smella af sér polaroid mynd við flottan bakgrunn milli kl. 13-16. Á annarri hæð hússins er ljósmyndasýning nemenda úr MH.

Í kjallara safnhússins sem nefnt er Landakot er að finna opna geymslu safnsins og nefnist hún KOFFORTIÐ. Þar verður boðið upp á skemmtilega myndaþraut. Í Koffortinu leynast margir forvitnilegir safngripir sem börn hafa gaman af og foreldrar, afar og ömmur þekkja frá því í „gamla daga.“

Leikfangasýningin Komdu að leika!  í safnhúsinu LANDAKOTI hefur fengið yfirhalningu og er nú enn betri fyrir vikið. Þar mega börn leika sér með leikföng sem börn hafa notað síðustu 100 árin.

Sjóminjasafnið 

Fimmtudag og föstudag 19. og 20. október kl. 11 verður farinn fjölskylduleiðangur um króka og kima varðskipsins Óðins. Takmarka verður fjölda gesta skipinu því þar eru þröng rými og ekki með öllu hættulaus. Því komast aðeins 15-20 manns í hverja leiðsögn. Gestum er bent á að bóka sig í leiðsögn í miðasölu safnsins.

Foreldrar með stálpuð börn geta farið í hefðbundna leiðsögn um borð í Óðni kl. 13, 14 og 15 en hún fer yfirleitt fram á ensku.

Helgina 21.-22. október milli kl. 13-16 býðst fjölskyldum að smíða skip úr tæknilegó eftir fyrirmyndum eða með frjálsri aðferð. Til aðstoðar verður sérlegur kubbasérfræðingur í tæknilegó.

Landnámssýningin í Aðalstræti

Landnámssýningin býður upp á vetrarfrísdagskrá dagana 19.-23. október frá kl. 10-18.  Þar verður hægt að púsla og leysa þrautir  í notalegu umhverfi sýningarinnar. Inn af sýningunni er kennslurými með leikföngum og víkingabúningum. Tilvalið tækifæri til að smella af flottri mynd!

Ljósmyndasafnið

Dagana 19.-23. október munu börn og fullorðnir í þeirra fylgd fá ókeypis aðgang að Ljósmyndasafninu.  Þar stendur yfir sýningin „Mál 214“ eftir Jack Latham sem fjallar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, eitt stærsta og umdeildasta sakamál í sögu Íslands og sýningin Hraun með ljósmyndum eftir Yogan Muller.