Margir að móta menntastefnu

Skóli og frístund

""

Grunnskólakennarar, foreldrar, starfsfólk frístundamiðstöðva og leikskólabörn hafa á undanförnum dögum sest á rökstóla og rætt áherslur í nýrri menntastefnu fyrir Reykjavíkurborg. 

Vinna við mótun nýrrar menntastefnu fram til ársins 2030 er komin á fullt skrið en fjölmargir koma að henni í víðtæku samráði og þátttöku allra hagsmunaaðila í skólasamfélaginu og utan þess. Í þessari viku hefur starfsfólk frístundamiðstöðvanna fundað og rætt hugmyndir að áherslum í stefnumótuninni og ígrundað hvaða hæfni börnin sem útskrifast úr grunnskóla á fjórða tug þessarar aldar þurfa að ráða yfir. Þá hafa grunnskólakennarar úr öllum skólum borgarinnar sest á rökstóla og foreldrar skólabarna. Sjötíu grunnskólanemendur hittust í liðinni viku á hugarflugsfundi um nýja menntastefnu og leitað hefur verið álits leikskólabarna í minni hópum.  

Öllum borgarbúum býðst að koma fram með hugmyndir og áherslur að nýrri menntastefnu í gegnum Betri Reykjavík síðar í þessum mánuði.