Mannúðar- og mannræktarsamtökin Höndin fá styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen

Mannlíf Mannréttindi

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra í Höfða þann 7. janúar sl.  Styrkurinn var stofnaður af hjónunum Bentu og Valgarði Briem 29. desember 1985 þegar liðin voru 75 ár frá fæðingu Gunnars. Þetta er í tuttugasta og áttunda sinn sem veitt er úr sjóðnum og hafa styrkþegar bæði verið félagasamtök og einstaklingar.

Að þessu sinni voru það mannúðar- og mannræktarsamtökin Höndin sem hlutu styrkinn sem nemur 350.000 krónum. Helga Hallbjörnsdóttir formaður samtakanna tók við styrknum.

Samtökin hafa verið starfrækt í níu ár, en þau voru stofnuð í nóvember árið 2005. Megintilgangur starfsins er að vera vettvangur fólks til sjálfstyrkingar og samhjálpar.

Þeir sem leita til Handarinnar fá aðstoð og liðsinni við hverja þá raun sem viðkomandi getur átt við að etja. Þeir fá stuðning og er hjálpað við að feta sig áfram og taka fyrstu skref til nýs lífs eftir ýmis áföll.

Starfsmenn Handarinnar heimsækja aldraða einstaklinga, öryrkja og sjúklinga sem eiga ekki heimangengt eða eru einmana. Spjallað er um daginn og veginn, aðstoðað við einstaka verkefni eða bara hlustað á þann sem á í hlut.

Borgarstjóri sagði við afhendingu styrksins í Höfða að samtökin væru vel að styrknum komin. Höndin hafi unnið þarft verk í samfélaginu í gegnum árin og hann óskaði samtökunum velfarnaðar í starfi.