Málþing um áhrif byggingarreglugerðar á nýja búsetuvalkosti

Velferð Umhverfi

""

Hvaða áhrif hefur ný byggingarreglugerð á uppbyggingu leigumarkaðar og framboð lítilla íbúða á höfuðborgarsvæðinu? Þessari spurningu verður svarað á málþingi sem Reykjavíkurborg stendur fyrir á fimmtudag.

Málþing um áhrif byggingarreglugerðar á uppbyggingu leigumarkaðar og framboð lítilla íbúða á höfuðborgarsvæðinu verður haldið fimmtudaginn 12. desember kl. 13 – 17 í Borgartúni 12 – 14 í húsakynnum Reykjavíkurborgar við Höfðatorg. 

Dagskrá:
• Páll Hjaltason: Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar
• Björn Karlsson, Mannvirkjastofnun: Ný byggingarreglugerð
• Friðrik Ágúst Ólafsson, Samtök Iðnaðarins: Byggingarreglugerð frá sjónarhorni verktaka
• Guðrún Björnsdóttir, Félagsstofnun Stúdenta: Uppbygging lítilla íbúða
• Guðrún Ingvarsdóttir, Búseti: Uppbygging leigufyrirtækis
• Auðun Freyr Ingvarsson, Félagsbústaðir: Framtíðarsýn Félagsbústaða

Að loknum framsöguerindum verða pallborðsumræður. Fundarstjóri og stjórnandi pallborðs er Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar. Reykjavíkurborg stendur fyrir málþinginu í samvinnu við Mannvirkjastofnun og fleiri aðila.

Málþingið er öllum opið og ókeypis. Skráningu skal senda á netfangið sea@reykjavik.is

Nýju Reykjavíkurhúsin og  Reykjavíkuríbúð 21. aldarinnar

Reykjavíkurhúsin og Reykjavíkuríbúð 21. aldarinnar eru samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar um eflingu leigumarkaðar og þróun nýrra íbúða. Á málþinginu verður meðal annars leitað svara við því hvort byggingarreglugerð gefi svigrúm fyrir slíka nýsköpun?

Verkefnið Reykjavíkurhúsin snýst um uppbyggingu hagkvæmra og áhugaverðra fjölbýlishúsa þar sem félagsleg blöndun er tryggð. Stefnt er að byggingu 400 – 800 íbúða í 15 – 30 húsum á næstu þremur til fimm árum. Reykjavíkurborg hefur efnt til samstarfs Félagsbústaða, Félagsstofnunar stúdenta, Búseta, byggingarfélags fatlaðra og aldraðra, auk annarra farsælla uppbyggingaraðila á húsnæðismarkaði um þetta verkefni.

Verkefninu Reykjavíkuríbúð 21. aldarinnar  var nýverið hleypt af stokkunum í samstarfi við Hönnunarmiðstöð og Samtök iðnaðarins, auk virks samráðs við fagfélög og þverfagleg teymi.  Verkefnið er skilgreint sem hugmyndavettvangur sem mögulega leiði til hugmyndasamkeppni.  Opna á fyrir þróun í skipulagi íbúðahverfa, íbúðarhúsa og innra fyrirkomulagi þeirra. Mæta á þörf fyrir vistvænni, samfélagsmeðvitaðri og framsæknari búsetukostum í þéttbýli.