Magnað myrkur- Vetrarhátíð 2. til 5. febrúar

Mannlíf Menning og listir

""

Fjögurra daga glæsileg Vetrarhátíð verður haldin dagana 2. – 5. febrúar. Höfuðborgarstofa skipuleggur og framkvæmir Vetrarhátíð sem nú er haldin í 16 sinn og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þessi hátíð ljóss og myrkurs samstendur af fjórum meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt, Snjófögnuði og ljósalist ásamt yfir 150 viðburðum þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni. 

Fjögurra daga glæsileg Vetrarhátíð verður haldin dagana 2. – 5. febrúar. Höfuðborgarstofa skipuleggur og framkvæmir Vetrarhátíð sem nú er haldin í 16 sinn og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þessi hátíð ljóss og myrkurs samstendur af fjórum meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt, Snjófögnuði og ljósalist ásamt yfir 150 viðburðum þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni. Allir þessir viðburðir eru ókeypis auk þess sem frítt er fyrir börn yngri en 16 ára á Snjófögnuðinn í Bláfjöllum

Á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu verða upplýstar í einkennislitum Vetrarhátíðar,  grænum og fjólubláum, auk þess sem ljóslistaverk verða á nokkrum lykilbyggingum á höfuðborgarsvæðinu; Hallgrímskirkju, Hörpu, Ráðhúsi Reykjavíkur og Kópavogskirkju. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu lýsa einnig upp lykilbyggingar eins og Bessastaði, Lágafellskirkju, Gróttuvita og Byggðasafn Hafnarfjarðar. Aldrei hafa fleiri tekið þátt í þessu samspili ljóss og myrkurs. 

Í tengslum við hátíðina verður slökkt á götulýsingu í miðborginni sunnudaginn 5. febrúar frá kl. 21-22. Það er gert til að vekja athygli á hugmyndinni um myrkurgæði og til að gera fólki kleift að upplifa himinhvolfið í sinni tærustu mynd.

Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skemmta fólki á höfuðborgarsvæðinu og gefa því tækifæri til að njóta menningar, lista, íþrótta og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi. Orkusalan er aðalbakhjarl Vetrarhátíðar í ár.

Skipulag Vetrarhátíðar:
2. febrúar, fimmtud., kl. 19.40: Opnunarkvöld við Hallgrímskirkju, ljóslistaverk og ljóshestareið Fáks. Tæplega 30 byggingar á höfuðborgarsvæðinu lýstar upp.
3. febrúar, föstud., kl. 18-23: Safnanótt í 45 söfnum. Reiðhjólakeppnin Brekkusprettur kl. 19.
4. febrúar, laugard., kl. 18-23: Sundlauganótt í 9 sundlaugum. Norðurljósahlaup WOW kl. 19.
5. febrúar, sunnud., kl. 10-17. : Snjófögnuður í Bláfjöllum.
5. febrúar, sunnud., kl. 21-22. : Miðborgin myrkvuð.
+ 150 viðburðir.

Opnunarkvöld Vetrarhátíðar- Eldgos á Hallgrímskirkju og ljóshestareið
Vetrarhátíð verður sett fimmtudaginn 2. febrúar kl. 19.40 með afhjúpun ljóslistaverksins Sköpun lands á Hallgrímskirkju. Verkið er eftir listamanninn Ingvar Björn og er samsett úr myndbrotum frá ýmsum eldgosum hér á landi t.d. í Holuhrauni (2014-2015). Samhliða því verður frumflutt hljóðverk þar sem m.a. lesin eru upp öll stærstu eldgos Íslandssögunnar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur hátíðina. Eftir setninguna fer af stað ljóshestareið hesta og ungmenna í Fáki frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og þaðan á Arnarhól. Þar gefst fólki tækifæri á að klappa hestunum og tala við knapanna.
Á sama tíma og setningin fer fram verða samtals tæplega 30 byggingar í öllum sveitarfélögum  á höfuðborgarsvæðinu lýstar upp með einkennislitum Vetrarhátíðar sem eru litir norðurljósanna eða grænn og fjólublár. Byggingarnar verða baðaðar ljósunum meðan á Vetrarhátíð stendur. 

Safnanótt
Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 3. febrúar en þá opna 45 söfn á öllu
höfuðborgarsvæðinu dyr sínar frá kl. 18-23 og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið yfir 120 viðburða af öllum stærðum og gerðum í söfnum á höfuðborgarsvæðinu. Það verður m.a. hægt að fara í pulsupartý í Garðskálanum í Gerðarsafni í Kópavogi, gera draugagrímur á Bókasafninu á Seltjarnarnesi, fara á opnun sýningar á verkum Ilmar Stefánsdóttur í Hafnarhúsinu, fara í jóga í Bókasafni Mosfellsbæjar, heyra spennandi þjóðsögu á Hvalasýningunni, sjá ljósasirkus í Borgarbókasafninu Grófinni, fara í fornleifakjallarann á Bessastöðum, sjá alvöru víkinga á Sögusafninu, fara í ratleik í Hönnunarsafninu í Garðabæ, fara til spákonu eða taka þátt í draugagöngu í Árbæjarsafni, sjá norðurljósin í Auroru Reykjavík, skoða myntir í Seðlabankanum, sjá drauga fortíðar í Hinu húsinu, sjá alvöru eldsmiði og víkinga á Landnámssýningunni, hlusta á pönkhljómsveitir í Pönksafninu eða fara í stjörnuskoðun í Bókasafni Hafnarfjarðar. 
Safnanæturleikurinn á sér stað á öllum söfnunum en þar geta gestir svarað laufléttum spurningum og unnið árskort á söfn, fallegar gjafir frá söfnunum ásamt öðrum skemmtilegum gjöfum.
Sérstakur Safnanæturstrætó gengur á milli safnanna á öllu höfuðborgarsvæðinu og auðveldar
gestum heimsóknina. Safnanæturstrætó verður með óvenjulegu sniði í ár en Kvikmyndasafn Íslands verður með sýningar um borð þar sem hægt verður að sjá efni sem kemur ekki oft fyrir sjónir almennings. Miðstöð Safnanæturstrætó verður á Kjarvalsstöðum.

Brekkusprettur
Á föstudeginum 3. febrúar  verður reiðhjólakeppnin Brekkusprettur haldin kl. 19 á Skólavörðustígnum. Þar reynir fyrst og fremst á spretthörku þátttakenda.

Sundlauganótt
Sundlauganótt verður haldin laugardagskvöldið 4. febrúar en frítt verður í sund frá klukkan
18-23 í níu sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu. Gestir fá að upplifa einstaka
kvöldstund í sundlaugunum þar sem ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi. Dagskráin í ár er
afar fjölbreytt en meðal þess sem er í boði er jóga, dans, samflot, kajaksiglingar í sundi, sundpóló, Improv Ísland og tónleikar með Jóni Jónssyni. Þær sundlaugar sem taka þátt í Sundlauganótt að þessu sinni eru:Álftaneslaug, Árbæjarlaug, Ásvallalaug, Klébergslaug, Lágafellslaug, Laugardagslaug, Salalaug (Sundlaugin Versölum), Sundlaug Kópavogs og Seltjarnarneslaug.

Norðurljósahlaup WOW
Á laugardeginum 4. febrúar  fer fram Norðurljósahlaup WOW í fyrsta skipti en um er að ræða skemmtiskokk þar sem þátttakendur verða skeyttir upplýstum armböndum sem blikka í takt við hlaupatakt þátttakenda. Hlaupið er 5 km. og hefst við Hörpu kl. 19 og síðan er hlaupið um miðbæinn. Engin tímataka er í hlaupinu sem nú er haldið í fyrsta skipti. Nánari upplýsingar er að finna á: Nordurljosahlaup.is.

Snjófögnuður
Við fögnum svo snjó og birtu í Bláfjöllum sunnudaginn 5. febrúar á lokadegi Vetrarhátíðar
þar sem íbúum höfuðborgarsvæðisins er boðið að njóta skemmtilegrar viðburðadagskrár frá kl. 10-17. Frítt er fyrir 16 ára og yngri í fjallið og 20% afsláttur af skíðaleigu. Tilboð á veitingum í veitingasölu.

Myrkvun miðborgarinnar
Vetrarhátíð lýkur svo með myrkvun miðborgarinnar kl. 21-22 sunnudaginn 5. febrúar. Það er gert til að vekja athygli á hugmyndinni um myrkurgæði og gera fólki kleift að upplifa himinhvolfið í sinni tærustu mynd. Rafmagn verður ekki tekið af íbúðarhúsnæði og fólk er í sjálfsvald sett hvort það slekkur ljósin á áðurnefndum tíma eður ei. Það skal líka tekið fram að þessi myrkvun hefur engin áhrif á öryggiskerfi og þá verða öll umferðarljós í borginni virk.