Lokaspretturinn í keppni um tæknilausnir í velferðarþjónustu

Velferð

""
Höfuðborgir Norðurlandanna og Nordic Innovation kynntu í dag hvaða tæknilausnir í velferðarþjónustu færu áfram í lokaáfanga keppninnar um sjálfstætt líf.
Frumkvöðlar hvaðanæva að frá Norðurlöndunum sendu inn  417 hugmyndir að lausnum um hvernig aldraðir og fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og þar af áttu Íslendingar 63 hugmyndir.
 
Þær fimm hugmyndir sem nú keppa um vinningin eru frá Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi.
 
Svíar voru valdir fyrir áminningarkerfið Piloxa en það er töflubox með snjallsímatengingu sem minnir notendur á að taka lyfin sín.
 
Frá Dönum kom hugmynd sem kallast Siren en það eru sokkar sem í er hitaskynjari sem kemur í veg fyrir fótamein af völdum sykursýki.
 
Frá Finnum fór í úrslit hugmyndin um greiðvikna nágrannann eða Nifty Neigbor og það snýst um að virkja nágranna til að aðstoða fatlað fólk og eldri íbúa í nærsamfélaginu.
 
Noregur á tvær hugmyndir, verndarann eða AssiStep en það er göngugrind í tröppur sem minnkar líkur á því að fólk detti. Baðþjónustan eða AbleOn ShowerSystem er nokkurs konar göngugrind í baðherbergi með festingu í sturtuvegg.
 
Þrjár íslenskar hugmyndir náðu alla leið í 25 manna úrslit en voru ekki meðal þeirra fimm sem dómnefnd valdi í lokaáfangann. Hugmyndirnar þrjár eru engu að síður líklegar til að sjá dagsins ljós í nánustu framtíð.
 
Lipri ferðalangurinn er snjallforrit sem auðveldar fötluðu fólki og öldruðum að ferðast. 
 
Örugg efri ár E- 21 er íslenskt verkefni sem  miðar að því að setja skynjara í húsnæði sem gæta að öryggi íbúa. Rennur vatn óeðlilega lengi?  Hefur ekki verið sturtað niður í x-langan tíma? Skynjarar nema ef eitthvað er ekki eins og á að vera og láta vita til öryggisaðila/ættingja að öruggara sé að kanna hvort allt sé með felldu.  Í kepppninni  hófu íslensku aðilarnir samvinnu við Falck og Philips.
Ylgarðurinn er verkefni sem bætir  híbýli fólks, ekki síst hjá þeim sem búa á norðlægum slóðum.  Með ylgarði er hægt að lengja sumarið og hleypa dagsljósinu inn í híbýli manna allan ársins hring. Þetta getur m.a. dregið úr notkun þunglyndis- og svefnlyfja meðal fólks og þá ekki síst fatlaðs fólks og aldraðra.
 
Ljóst verður hver hlýtur fyrsta vinninginn, um 17 milljónir íslenskra króna, í júní á næsta ári. Allar fimm hugmyndirnar sem nú keppa fá umtalsverðan fjárstuðning og aðstöðu til þess að gera tilraunaprófanir í höfuðborgunum.
 
Markmið keppninnar er að Norðurlöndin taki forystu í að þróa lausnir í velferðarþjónustu og að þær geti nýst á heimsvísu. Það er óhætt að fullyrða að þessi þróun ýtir undir samvinnu Norðurlandanna í að leita lausna fyrir velferðarkerfið og er þessi keppni liður í því. Með nýjum lausnum getum við lyft heilbrigðis- og velferðarþjónustu á hærra stig.