Ljósin tendruð á Oslóartrénu á Austurvelli

Umhverfi Menning og listir

""

Mikill fjöldi safnaðist saman á Austurvelli þegar ljósin voru tendruð á Oslóartrénu.  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri naut aðstoðar Jónasar Hrafns Gunnarssonar norsk-íslensks 7 ára gamals drengs við að kveikja á trénu.

Tréð var fellt á svæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk þann 16. nóvember sl. og er um að ræða 14 metra hátt sitkagreni sem er um 54 ára gamalt. Tréð var skreytt  með óróa Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Line Steine Oma borgarfulltrúi í Osló ávarpaði samkomuna og afhenti borgarstjóra bókagjöf til allra grunnskóla Reykjavíkur. Um er að ræða fjórar þýddar bækur eftir norska rithöfunda.

Elísabet Ormslev og Sverrir Bergmann fluttu jólalög ásamt hljómsveit. Einnig birtust jólasveinar sem höfðu stolist í bæinn og sungu þeir og skemmtu kátum krökkum á öllum aldri.

Kynnir var Katla Margrét Þorgeirsdóttir og var dagskráin túlkuð á táknmáli.